Herinn stundaði oft æfingar á auðum svæðum

Friðþór Eydal, upplýsingafulltrúi á Keflavíkurflugvelli, sem hefur safnað saman miklum fróðleik um hernaðarumsvif hér á landi á tímum síðari heimsstyrjaldar, segir að æfingar hjá erlendu herliði hér á landi hafi verið stundaðar mjög víða á auðum svæðum á höfuðborgarsvæðinu.

Sprengja frá tímum síðari heimsstyrjaldarinnar fannst í dag  á byggingasvæði í Fossvogi þar sem byggja á íþróttahús og félagsaðstöðu HK. Friðþór segir að mjög erfitt sé að gera sér grein fyrir af hverju sprengjan fannst á þessum stað. „Þarna var ekki æfingasvæði og ekki nein bækistöð,” sagði hann í samtali við mbl.is.

Friðþór sagði að nokkrir möguleikar væru fyrir hendi. Sprengjunni hefði getað verið hent þarna einhverra hluta vegna og þá kynnu menn að hafa verið að æfa á þessu svæði með jarðbundin vopn og eitthvað orðið eftir.

Annar möguleiki er að sprengjan hefði getað fallið úr flugvél án þess að springa en Fossvogurinn var í aðflugleið að Reykjavíkurflugvelli.  Einnig væri hugsanlegt að um loftvarnarskot úr fallbyssu væri að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert