Akrein lokuð vegna þrengingar

mbl.is/Sigurður Bogi

Lögreglan vill vekja athygli á því að þrenging er á  Vesturlandsvegi, þ.e. í Norðurárdal við Bjarnadalsá. Akreinin til suðurs er lokuð vegna þrengingar. Að sögn Veðurstofunnar má búast við áframhaldandi vatnavöxtum í Norðurá með flóðahættu á láglendi neðar í Borgarfirði.Búið er að merkja vel við þrenginguna á veginum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjarskiptamiðstöð lögreglu.

Spáð er lægðabylgju úr suðvestri og með henni hvessir heldur aftur í kvöld og í nótt. Snjómugga um landið vestanvert frá um kl. 17-18 og síðar hríðarveður, en slydda eða bleytusnjór á láglendi. Kuldaskil fara yfir vestanlands upp úr miðnætti og í kjölfarið frystir á láglendi og þá með éljum og hálku.

Að sögn Vegagerðarinnar er Djúpvegur nr. 61, sem er rétt fyrir sunnan Hólmavík (við Skeljavík), enn lokaður þar sem vegurinn er í sundur. Sami vegur er líka í sundur yst í Staðardalnum, við gatnamót Djúpvegar og Drangsnesvegar. Áætlað er að viðgerð ljúki milli kl. 20 og 22 og umferð þá hleypt á í framhaldi af því.

Færð og aðstæður

Vegir á Suður- og Vesturlandi eru að mestu greiðfærir, þó er hálka á Hellisheiði og í Þrengslum.

Á Vestfjörðum er hálka og éljagangur og eitthvað um hálkubletti. Snjóþekja og skafrenningur er á Þröskuldum en hálka og skafrenningur á Gemlufallsheiði. Óveður og hálka er á Mikladal og Hálfdáni.
Vegur 61 við Skeljavík, rétt sunnan við Hólmavík, er lokaður þar sem stórt skarð hefur myndast í veginn og er reiknað með að viðgerð geti tekið töluverðan tíma.

Á Vesturlandi er hálka á Bröttubrekku og hálkublettir á Holtavörðuheiði.

Vegir eru víða greiðfærir á Norðurlandi en þó er eitthvað um hálkubletti. Hálka og skafrenningur er á Öxnadalsheiði

Á Austurlandi er víða orðið greiðfært en þó eru enn hálkublettir á stöku stað. Greiðfært er með suðausturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert