Dæling hafin í Reykjavíkurhöfn

Byrjað er að dæla úr Perlu sem sökk í Reykjavíkurhöfn. Nú eru til reiðu tvöfalt afkastameiri dælur en áður, þegar reynt var að ná skipinu upp af botni Gömlu hafnarinnar í byrjun mánaðarins, auk annars viðbótarbúnaðar.

Unnið hefur verið að ýmsum undirbúningi undanfarna viku, útreikningum og öflun tækja. Nú á ekkert að vera því til fyrirstöðu að hægt verði að ná skipinu upp í dag og koma því í burtu.

„Við vonumst til að þetta gangi núna en það kemur í ljós á allra næstu klukkustundum,“ segir Gísli Gíslason hafnarstjóri Faxaflóahafna í samtali við mbl.is. „Þetta gerist hægt og bítandi enda eru þetta nokkur hundruð tonn af sjó sem þarf að dæla úr skipinu.“

Að hans sögn telja menn sig vera búna að loka fyrir lekann í stafni skipsins. „En það er spurningin sem við fáum svar við núna, hvort það hafi tekist,“ segir Gísli.

Dráttarbátarnir Magni, Jötunn og Leynir eru allir komnir í Reykjavíkurhöfn ásamt hafrannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni, til að aðstoða við aðgerðir. „Öll helstu skip íslenska flotans,“ segir Gísli kíminn í bragði, en bætir við að taugar liggi úr bátunum yfir í Perlu til að hún haldi jafnvægi við dælinguna.

„Það er eitt að dæla sjónum úr en annað að halda skipinu stöðugu. Það er nokkuð flókið verkefni og ef skipið veltur þá getur ástandið versnað til muna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert