Búið að áfrýja Chesterfield-máli

Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson.
Hreiðar Már Sigurðsson, Sigurður Einarsson og Magnús Guðmundsson.

Ríkissaksóknari hefur áfrýjað dómi héraðsdóms í Chesterfield-málinu svokallaða sem einnig hefur verið nefnt CLN-málið. Í lok janúar á þessu ári sýknaði héraðsdómur alla ákærðu í málinu, þá Hreiðar Már Sig­urðsson, fyrr­ver­andi for­stjóra Kaupþings, Sig­urður Ein­ars­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­formann Kaupþings, og Magnús Guðmunds­son, fyrr­ver­andi for­stjóra Kaupþings í Lúx­em­borg.

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari staðfestir í samtali við mbl.is að sýknudómi yfir öllum þremur hafi verið áfrýjað. Féll dómur í málinu 26. janúar og er frestur til að áfrýja málinu því liðinn.

Þrímenn­ing­arn­ir voru ákærðir fyr­ir lán til Chesterfield United Inc., Partridge Mana­gem­ent Group S.A. og eign­ar­halds­fé­laga þeirra, sam­an­lagt 510 millj­ón­ir evra haustið 2008. Það jafn­gilti nærri 70 millj­örðum króna miðað við gengi evru 7. októ­ber 2008. Sér­stak­ur sak­sókn­ari tel­ur að féð sé allt tapað Kaupþingi.

Þar sem Hreiðar og Magnús hafa þegar fyllt refsiramma fyrir auðgunarbrot, upp á sex ár, gerði saksóknari í málinu kröfu um að þeim yrði gerður refsiauki. Samkvæmt lögum er slíkt hægt samkvæmt 72. grein almennra hegningarlag ef um ítrekuð brot er að ræða. 

Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari.
Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Dómurinn tók aftur á móti ekki undir málflutning saksóknara í málinu og sýknaði ákærðu. Segir í niðurstöðu dómsins að málið byggist á því að lán hafi verið veitt án trygginga. „Ekki er að sjá að þessu mik­il­væga atriði hafi verið gef­inn sér­stak­ur gaum­ur í rann­sókn máls­ins,“ segir í dómnum. Þá er heldur ekki tekið undir með ákæruvaldinu að stjórnendurnir hafi stefnt fé bankans í verulega hættu. „Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna alla ákærðu af þess­um sak­argift­um,“ seg­ir um sak­argift­ir í tveim­ur af fjór­um ákæru­liðum.

Chesterfield-málið er það síðasta sem er í gangi gegn fyrr­um stjórn­end­um Kaupþings, en áður hef­ur verið dæmt í Al-thani mál­inu á báðum dóm­stig­um. Þá er beðið að Hæstirétt­ur taki fyr­ir markaðsmis­notk­un­ar­mál Kaupþings og Marple-málið svo­kallaða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert