Fjölga öryggismyndavélum í Eyjum

Frá Þjóðhátíð í Eyjum.
Frá Þjóðhátíð í Eyjum. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Undirbúningur fyrir Þjóðhátíð er langt á veg kominn. Nær öll mannvirki eru komin upp og er Þjóðhátíðarnefnd að hnýta síðustu hnútana. Á hátíðinni verða tæp 30 tónlistaratriði með rúmlega 200 tónlistarmenn innanborðs.

Dóra Björk Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ÍBV, reiknar með að hátíðin verði svipuð og undanfarin ár. 

„Það hefur verið nokkuð jafnvægi í miðasölunni hjá okkur síðustu ár. Það skemmtilega við þetta er að aldurssamsetning gestanna er alltaf svipuð, bæði börn og eldri borgarar og allt þar á milli,“ segir Dóra og bætir við að mikið sé um að heilu stórfjölskyldurnar ákveði að fjölmenna til Eyja á Þjóðhátíð.

Að sögn Dóru verður eftirlitsmyndavélum fjölgað á Þjóðhátíðarsvæðinu í ár til að auka öryggi gesta. Þá verða allir miðarnir rafrænir á Þjóðhátíð í ár sem hún vonast til að verði til þess fallið að flýta fyrir afgreiðslu armbanda. „Ég vil nota tækifærið og koma því á framfæri að það er sama strikamerki sem er notað fyrir ferjuna og dalinn og því nauðsynlegt að passa vel upp á miðann sinn,“ segir hún.

Hún segir nánast orðið uppselt til Eyja á föstudag með Herjólfi og Víking en enn sé eitthvað laust í flug hjá Eagle Air. „En við eigum enn eitthvað eftir af miður til Eyja á fimmtudag sem og laugardag fyrir þá sem vilja nýta sér laugardagspassann,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert