Stefna á að opna lýðháskóla 2018

Stefnt er að því að opna skólann haustið 2018 en …
Stefnt er að því að opna skólann haustið 2018 en gert er ráð fyrir að hann muni taka við um sextíu nemendum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Stofnfundur Félags um lýðháskóla fór fram í Félagsbæ á Flateyri í dag. Til­gang­ur fé­lags­ins er að vinna að und­ir­bún­ingi og stofn­un lýðhá­skóla á Flat­eyri. Stefnt er að því að opna skólann haustið 2018 en gert er ráð fyrir að hann muni taka við um sextíu nemendum og er markhópurinn fólk á aldrinum 18 til 35 ára.

Á fundinum kom fram að ekki sé útilokað að hefja starfið núna í haust en eins og staðan er núna er ekki útséð með fjármögnun og þátttöku mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Um þrjátíu manns hafa verið í sjálfboðaliðavinnu við að leggja verkefninu lið með því að þróa námsbrautir og fleira.

Ekki verður lögð áhersla á próf eða ein­ing­ar í skól­an­um held­ur þátt­töku og að nem­end­ur á öll­um aldri geti komið og dvalið í eina eða tvær ann­ir, kynnst nýj­um stað og fólki, tek­ist á við ólík viðfangs­efni og haft gagn, gam­an, þroska og lær­dóm af. Hugsunin á bak við skólann er að byggja á styrkleika staðarins og sérstöðu þar sem hafið og fjöllin verða í fyrirrúmi.

Forgangsatriði að vinna að fjármögnun skólans

Rík hefð er fyrir lýðháskólum í Skandinavíu en þeir eru lítt þekktir hér á landi. Á Seyðisfirði er einn lýðháskóli en unnið er á opnun annars skóla á Laugarvatni. Starf lýðháskólans á Flateyri yrði með talsvert öðru sniði en starf annarra lýðháskóla þar sem mikil áhersla yrði lögð á umhverfisvitund og sjálfbærni. Á fundinum var farið yfir það hvernig umhverfi Flateyrar hentar vel fyrir skóla sem þennan og styrkleika svæðisins hvað varðar umhverfið, náttúruna, sjálfbærni og friðsæld.

Stefnt er að því að skólinn bjóði upp á fjórar námsleiðir en nú er algjört forgangsatriði að vinna að fjármögnun skólans og frekari þróun kennslugreina.

Á fundinum var skipað í stjórn félagsins en í hana voru kjörin þau Runólfur Ágústsson, Dagný Arnalds, Óttar Guðjónsson, Þórdís Sif Sigurðardóttir og Ívar Kristjánsson. Varamenn eru þau Eiríkur Finnur Greipsson, Illugi Gunnarsson og Kamilla Edwalds.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert