Sannfærður um endurupptöku í sumar

Guðjón Skarphéðinsson með skýrslu endurupptökunefndar í höndunum.
Guðjón Skarphéðinsson með skýrslu endurupptökunefndar í höndunum. mbl.is/Golli

Guðjón Skarphéðinsson guðfræðingur, sem tók út fangelsisdóm fyrir aðild að Geirfinnsmálinu stendur hann frammi fyrir endurupptöku málsins ásamt fjórum mönnum sem voru sakfelldir nú þegar 37 ár eru liðin frá dómskvaðningu. Blaðamaður mbl.is settist niður með Guðjóni í dag eftir að úrskurðurinn lá fyrir. 

„Það er búið að teygjast feiknarlega á ranglætinu. Sá sem á mestu þakkirnar eftir á að hyggja er Sævar, það verður að segjast. Hann hamaðist í því að hann væri saklaus og barðist með kjafti og klóm,“ segir Guðjón. 

Guðjón og Klara eiginkona hans fengu fréttirnar um hálftíuleytið í morgun hjá Ragnari Aðalsteinssyni hæstaréttarlögmanni sem hefur verið með málið á sinni könnu í yfir 20 ár. Hann var þegar orðinn sannfærður um úrskurðinn. 

„Ég féllst á þá skoðun Ragnars í sumar að þetta yrði endurupptekið, hvað sem það svo þýðir, og ég hefði orðið steinhissa ef þetta hefði ekki farið svo. Ég efast um að endurupptökunefnd hefði getað fundið forsendur til að taka þetta ekki upp,“ segir Guðjón.

Heljarinnar verk 

Endurupptökunefnd hefur unnið í málinu í tæp þrjú ár og telja úrskurðirnir sex samtals fimm þúsund og sex hundruð blaðsíður. „Þetta er ekki fyrsta og ekki síðasta heljarinnar verkið í kringum þetta mál,“ segir Guðjón. Brautin fyrir endurupptöku var rudd eftir að þáverandi ráðherra Ögmundur Jónasson lagði fram frumvarp þess efnis að ættingjar sakborninga ættu rétt á að leggja fram endurupptöku í málinu fyrir þeirra hönd. 

„Þetta breyttist með lagasetningu Ögmundar sem sinnti þessu af miklum dugnaði. Hann á mjög mikinn þátt í þessu og reyndar margir stjórnmálamenn, þar á meðal Davíð [Oddson] sem vildi láta fremja hundahreinsun á dómskerfinu hér á landi, það væri ekki nokkur mynd á þessu.“

Rétti kúrsinn í Danmörku

Eftir að hafa tekið út fangelsisdóminn var útlitið svart. Guðjón átti ekki í nein hús að venda og drakk í óhófi. Hann hélt til Danmerkur haustið 1981, nam guðfræði með allt sitt á þurru og vann ýmis störf samhliða námi. Fimmtán árum síðan sneri hann aftur til Íslands og var kjörinn prestur á Staðarstað á Snæfellnesi. 

„Það var nauðsynlegt að komast út. Þetta leit ekki vel út þegar maður var kominn neðst í goggunarröðina sem getur verið snúið í Reykjavík og vill enda í fylleríi. Það er vont að vera sleppt á umferðarmiðstöðinni, þekkja bara Tobbu Töddu uppi í Breiðholti og ekki víst að hún hleypi þér einu sinni inn.“

Þjóðin vissi betur en dómstólar

Spurður hvort byrði ranglætisins hafi lést með tímanum svarar Guðjón:

Hún léttist raunar strax þegar ég ákvað að fara af landi brott. Ég var í fjölda ára í Danmörku og síðan fjölda ára í friði úti á landi þannig að þetta mál hefur farið ofan garða og neðan hjá mér í mörg ár. Ég hef ekki heyrt aukatekið orð um það í minn garð. En aftur á móti hefur verið sígandi áhugi á því í seinni tíð. Mikið erlendis frá, til dæmis Englandi og fleiri stöðum. Persónulega hef ég þá skoðun að þjóðinni hafi aldrei nokkurn tímann dottið í hug að þetta væri svona eins og dæmt var, alveg frá upphafi,“ segir Guðjón.

En hvað tekur við eftir kaflaskilin?

„Daglegt líf. Ragnar kemur þessu á málaskrá Hæstaréttar en það þýðir X mörg ár til viðbótar og þá gæti ég verið dauður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert