Börn þurfa fleiri sönglög

Auður Gudjohnsen söngkennari á æfingu með einum af fjórum hópum …
Auður Gudjohnsen söngkennari á æfingu með einum af fjórum hópum Krúttakórsins í Langholtskirkju. mbl.is/Golli

„Það sem vakti áhuga minn á verkefninu var að ég er sjálf búin að vera lengi í tveimur atvinnukórum. Ég er í Schola Cantorum og Barbörukórnum í Hafnarfirði og syng við útfarir og aðrar athafnir. Ég stofnaði lítinn kvennasönghóp fyrir nokkrum árum, ásamt fimm vinkonum og söngsystrum. En líka vegna þess að ég nýt þess að vinna með börnum og miðla söng,“ segir Auður Guðjohnsen, kórstjóri Krúttakórsins, sem er barnakór Langholtskirkju.

Auður var að skila lokaverkefni sínu til MA-gráðu í listkennslu við Listaháskóla Íslands sem heitir Sönglög fyrir börn – Söngur í skólastarfi. Þungamiðja verkefnisins var fimm ný sönglög fyrir börn sem Auður samdi og hefur nýtt við tónmenntakennslu sl. vetur og við ýmis önnur tækifæri. Vonast hún til þess að þau geti nýst börnum, í kennslu og í barnakórastarfi. Auk þess samanstendur lokaverkefnið af marghliða umfjöllun um samsöng, eðli og sögu hans, áhrif og menntagildi. Eins skoðaði hún stöðu söngs á meðal tónlistarkennara, en söngur virðist fara dvínandi þrátt fyrir öflugt kórstarf á Íslandi, að því er fram kemur í samantekt verkefnisins.

Stýrir Krúttakórnum

Sem fyrr segir stýrir Auður Krúttakórnum. Þetta eru fjórir hópar með hátt í 20 börn í hverjum hóp á aldrinum fjögurra til sex ára.

„Það er mjög blómlegt starf í Langholtskirkju í kórskólanum, alveg frá þeim litlu og upp í fullorðinskór. Börnin eru að syngja allt milli himins og jarðar, en svo eru t.d. árstíðabundin, úti að leika lög á vorin, svo eru jólalög, óskalagaþema eins og óskastjarnan og óskasteinar. Það eru tónleikar um jólin, messur sem þau syngja í o.s.frv. Foreldrar, ættingjar og vinir barnanna koma svo og hlýða á,“ segir Auður.

Aðspurð hvort börn flokkist niður í mismunandi raddgerðir eins og fullorðnir segir hún barnaraddir allar á svipuðu raddsviði hjá svona litlum krökkum.

Sumir vilji meina að börn eigi að syngja á hærra sviði, en aðrir vilji að börnin eigi að byrja á því að syngja á þann hátt sem er þeim eðlilegast, svo hægt og rólega megi reyna að hækka röddina upp.

„Það sem ég fjalla um í lokaverkefninu mínu er að börnin eigi að syngja, það er svo mikill sameiningarkraftur og samkennd sem vaknar við samsönginn. Manni hefur fundist samsöngur vera á undanhaldi í tónmenntakennslu í dag, það séu komnar breyttar áherslur,“ segir Auður. Hún segir börnin ekki byrja að læra að lesa nóturnar svona ung, frekar vill hún leggja áherslu á að þau byrji að finna tónlistina með röddinni og í kroppnum, með hreyfingum við, þannig að þau fái tónlistina í blóðið og syngi eftir eyranu. En þegar þau séu orðin þjálfaðri, þá sé bætt við áherslu á nóturnar og orðin. „Söngurinn hefur áhrif á raddþroska, framsögn, börnin eflast og styrkjast við að koma fram og sjálfsmyndin styrkist, sem nýtist t.d. strax í grunnskóla við að flytja fyrirlestra o.s.frv.“

Öll börn geta sungið

„Mýtan sem var í gamla daga um að sum börn gætu ekki sungið er bara röng, maður lærir að verða lagviss og lagleysa er bara þjálfunarleysi. Þetta er bara eins og að læra að hjóla. Öll börn geta lært að syngja með réttri þjálfun og jákvæðri hvatningu. Það þarf að þjálfa söngvöðvana og söngminnið, þetta getur allt lærst,“ segir Auður.

Áherslur í tónmenntakennslu í dag séu á tæknina og rafræna tónlistarkennslu, sem sé eðlilegt í samræmi við þróunina, en við megum ekki gleyma sameiningarkraftinum og samkenndinni sem maður upplifir í kórsöngnum.

„Börn læra samvinnu og félagslegan þroska í samsöng, og finna tilfinninguna að vera hluti af einhverju stærra. Í verkefninu er ég að skoða hvernig söngur hefur áhrif á sál og líkama, samskipti fólks og ekki síst barna. Söng má nýta til að miðla öðru námi t.d. og læra um menningararfinn ásamt nýju efni. Það er nauðsynlegt að þekkja sinn eigin menningararf til að geta skilið og metið menningu annarra. Ég vil því hvetja íslensk tónskáld til að halda áfram að semja fyrir íslensk börn,“ segir Auður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Loka