„Þetta fólk þjáist af athyglissýki“

„Ég veit að flestir sem eignast peninga verða að fíflum. …
„Ég veit að flestir sem eignast peninga verða að fíflum. En við urðum samt að vera svolítið stífir,“ segir Pétur Guðmundsson, landeigandi í Ófeigsfirði, um vatnsréttindasamninga sem hann gerði vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. mbl.is/Golli

Pétur Guðmundsson, landeigandi í Ófeigsfirði á Ströndum, segir að hugmyndir um virkjun Hvalár megi rekja allt aftur til ársins 1916. Það var þó ekki fyrr en um miðjan áttunda áratuginn sem vatnamælingar hófust á svæðinu. Þá mætti Sigurjón Rist, sem var þá forstöðumaður vatnamælinga Orkustofnunar, í fjörðinn og setti upp fyrsta mælinn í Hvalá. „Rannsóknir hafa svo staðið yfir nánast óslitið síðan,“ segir Pétur. 

Ófeigsfjörður var mikil hlunnindajörð og á 19. öld og framan af 20. öld var farið þaðan til hákarla- og selveiða, reki nýttur og sömuleiðis var þar lengi vel góð dúntekja. Pétur ólst upp í Ófeigsfirði ásamt systkinum sínum, afa sínum og nafna og ömmu, Ingibjörgu Ketilsdóttur, og foreldrum sínum, Guðmundi og Elínu Guðmundsdóttur, allt þar til búskapur lagðist af árið 1965 og jörðin fór í eyði. Hann keypti svo hálfa jörðina af afa sínum árið 1970 og nokkrum árum síðar keypti hann 22% til viðbótar. Pétur á því í dag rúmlega 72% í jörðinni. Systkini hans og önnur skyldmenni eiga svo að mestu jörðina á móti honum, fyrir utan 3% hlut sem þrír eigendur VesturVerks eiga.

Með sumardvöl á æskuslóðum

Pétur dvelur enn í Ófeigsfirði yfir sumarmánuðina ásamt eiginkonu sinni, Margréti Eggertsdóttur, og hefur gert svo allar götur frá því að hann fluttist þaðan. Fyrstu árin fóru börnin þeirra með í fjörðinn á hverju sumri og síðar einnig barnabörnin. Hlunnindin, sem áður voru rífleg, hafa hins vegar dregist verulega saman með árunum. En fjörðurinn, þar sem rætur Péturs liggja, togar fast í hann og hann getur ekki hugsað sér annað en að hverfa til hans árlega er vetri sleppir.

Hugmyndir um að virkja Hvalá hafa í gegnum árin oft legið í dvala í lengri og skemmri tíma. Stundum var blásið lífi í þær og nú síðustu ár af auknum krafti eftir að Vesturverk á Ísafirði fór að sýna verkefninu áhuga. „Þar voru menn sem voru búnir að fá nóg af þessu rafmagnsleysi vegna ítrekaðra bilana og truflana sem oft stóð svo dögum skipti,“ segir Pétur.

Horft yfir Ófeigsfjörð. Bær Péturs er lengst til vinstri á …
Horft yfir Ófeigsfjörð. Bær Péturs er lengst til vinstri á myndinni. Skammt frá rennur Húsá og enn lengra Rjúkandi og Hvalá. mbl.is/Golli

Eigendur Vesturverks komu fyrst að máli við Pétur haustið 2007. „Þá höfðu þeir hugmyndir um 30 megavatta virkjun, sem var aflið sem rannsóknir sem þá höfðu verið gerðar sýndu að hægt væri að fá þarna. Á þessum tíma vildu þeir flytja rafmagnið beint út á Ísafjörð og þeim megin inn á kerfið. Því þetta voru ekki nema 37 megavött.“ Síðan kom í ljós að lagning raflína er varin með einkarétti og Landsnet ekki tilbúið til að fara þá leið og því var sú tenging slegin út af borðinu.

Pétur segist hafa tekið þeim vel. „Ég vissi að þetta voru strákar sem gátu gert hlutina. Þetta voru strákar sem höfðu unnið frá því fyrir fermingu og voru svo búnir að afla sér menntunar. Þetta eru klárir strákar og duglegir. Þeir voru ekki að víla fyrir sér þótt þeir blotnuðu.“

Þarna er Pétur að tala um bræðurna Gunnar Gauk Magnússon og Valdimar Steinþórsson og Hallvarð Aspelund, eigendur Vesturverks. 

Vildi ekki selja jörðina

Í fyrstu var Pétur spurður hvort hann vildi selja jörðina í Ófeigsfirði en það hugnaðist honum ekki. Þá var ákveðið að semja um vatnsréttindin vegna fyrirhugaðrar orkuvinnslu. Það er nokkrir eigendur að jörðinni og stóðu þeir fast á sínu í samningaviðræðunum. „Ég sagði að þetta væri eldsneyti á virkjunina,“ rifjar hann upp. Hann bætti svo við að sér sýndist að kostnaður við eldsneyti á tæki væri um 10% af brúttó innkomu vegna notkunar þeirra og vísaði þar til vinnuvéla sem hann átti. Pétur segist svo hafa spurt: „Eigum við ekki bara að byrja á því?“

Samþykkt var að skoða þá tillögu en þegar tilboðið kom var það þó mun lægra. „Þetta eru engar ofboðslegar tölur sem verða borgaðar fyrir þetta þó að þetta sé dálítið mikið miðað við það sem ég hef haft í tekjur á ári.“

Sömdu um 2% af söluverði raforkunnar

Hann segist hreinlega ekki vita hvað hann fái nákvæmlega í sinn hlut. Upphæðin sem um var samið er hlutdeild í söluverði raforkunnar. „Ég hef verið þráspurður um hvað ég fái en ég veit það ekki því mér hefur aldrei dottið í hug að reyna að reikna það út. Vegna þess að ég veit ekkert út frá hverju ég á að reikna. Það eina sem ég hef í höndunum er prósentan,“ segir Pétur. Hann segir hana ekkert leyndarmál. Í hlut landeigenda komi 2% af söluverði raforkunnar til að byrja með en upphæðin hækki svo smám saman þegar líður á starfstíma virkjunarinnar.

„Þessir fossar eru ekkert fallegir þegar það er mikið í …
„Þessir fossar eru ekkert fallegir þegar það er mikið í þeim, þá eru þeir bara mórauð froða. Þeir eru fallegastir þegar það er hæfilega lítið í þeim,“ segir Pétur Guðmundsson, landeigandi í Ófeigsfirði. mbl.is/Golli

Pétur hefur giskað á að í hans hluti muni falla eins og ein árslaun, eða um 4-6 milljónir króna árlega. „En ég hef aldrei látið mér detta í hug að reikna þetta út vegna þess að ég veit að ég myndi fá vitlausa tölu.[...] Þegar kemur að því að borga út þá verð ég sjálfsagt hissa.“

Pétur er þess fullviss að vatnsréttindasamningurinn sem hann skrifaði undir sé betri en almennt gerist í slíkum samningum, að minnsta kosti hin síðari ár. „Núna fengist ekki svona góður samningur.“

Hann segist hafa litið svo á að hann væri að gefa fordæmi fyrir alla þá sem á eftir myndu koma. „Ég veit að flestir sem eignast peninga verða að fíflum. En við urðum samt að vera svolítið stífir,“ segir hann, því hann vildi að aðrir sem kæmust í þessa stöðu, að eiga „læk sem einhver vildi virkja“, fengju eitthvað fyrir sinn snúð.

„Síðan hefur hann ekki sést“

Spurður hvort hann þekki Ítalann Felix von Lango-Liebenstein sem á Eyvindarfjörð, og hefur einnig gert samning um sín vatnsréttindi, segist Pétur aldrei hafa séð þann mann. Hann viti þó til þess að hann hafi komið tvisvar í fjörðinn eftir að hann keypti jörðina fyrir um áratug. „Síðan hefur hann ekki sést.“

Pétur segist hafa fengið tilboð í jörðina í Ófeigsfirði skömmu fyrir hrun. Hann viti ekki hvort það var Ítalinn sem bauð en hann hafi keypt Eyvindarfjörð skömmu síðar.

Þetta var í uppsveiflunni þegar menn fóru um og keyptu jarðir, að sögn Péturs. „Mér voru boðnar nokkrir tugir milljóna í þetta en ég ansaði því ekki. Þá kom annað tilboð eftir nokkra mánuði og hafði þá hækkað um helming.“ Pétur segist ekki hafa viljað láta narra af sér eignina, eins og reyndin varð með marga. „Svo var fólk sem tapaði í hruninu þeim peningum sem það hafði fengið fyrir eigur sínar.“

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Hægt að fara í mál vegna tafa

Pétur gekk frá vatnsréttindasamningnum við VesturVerk vorið 2008. Engin hreyfing komst þó á málið næstu árin vegna bankahrunsins. „Málið hefur allt verið vel kynnt og alltaf verið farið að settum lögum og reglum,“ segir Pétur. „Svo koma ekki mótmæli fyrr en á síðasta snúning. Þeir eru búnir að hafa tækifæri til þess að kæra allan tímann. Ég segi nú bara eftir þessa reynslu að það verður að setja einhverjar reglur eða lög frá Alþingi um að frá ákveðnum tímapunkti þá sé kærufresti lokið. Það gengur ekki að verk eins og til dæmis vegurinn um Teigsskóg, sem er bráðnauðsynlegur fyrir sunnanverða Vestfirði, tefjist um mörg ár vegna þvermóðsku eins eða tveggja manna.“

Hann segir að líklega sé nú búið að eyða um milljarði í undirbúning verkefnisins, m.a. rannsóknir. „Og þá á allt í einu að reyna að stoppa þetta. Þetta fólk sem lætur svona það tefur verkið, það getur ekkert stoppað þetta. Það verður að gera sér grein fyrir því. Það getur tafið þetta og það kostar peninga. Þetta fólk þjáist af athyglissýki.“

Pétur segir að hægt væri að fara í mál við þá sem tafið hafa verkefnið á þeim forsendum að „þú mátt ekki með orði eða gjörðum tefja og koma í veg fyrir að einstaklingur geti nýtt eigur sínar.“ Hann segist engan áhuga hafa á slíkum málaferlum í sjálfu sér en það gæti þó orðið lendingin, „ef það á að halda þessu áfram. Þá færi nú lítið fyrir læknalaununum ef þeir ættu kannski að fara að borga einhverja milljarða.“ 

Pétur segist ekki geta ímyndað sér annað en að Hvalárvirkjun verði byggð. Hann segir að Árneshreppur fái ekki mjög miklar tekjur af virkjuninni þó að þær muni hækka ráðstöfunarfé þessa litla sveitarfélags um 50%. Eigendur VesturVerks hafi gert sér grein fyrir þessu. „Þeir hugsuðu sér að það væri nú rétt að reyna að gera eitthvað fyrir hreppsbúa í staðinn, til dæmis að leggja þriggja fasa rafmagn. Þeir geta stutt sveitarfélagið með þeim hætti. En þá voru þetta kallaðar mútur. Það er svo auvirðilegt hvernig fólk hagar sér, að láta svona út úr sér.“

Eyðileggur ekki fossana

Pétur segir að svæðið, sem hann ólst upp á og ber sterkar taugar til, sé mjög fallegt. Virkjunin myndi skerða vatnsrennslið „en það eyðileggur ekkert fossana eins og sumir eru að halda fram.“

Hann segir að gera megi ráð fyrir að vatn úr uppistöðulónum á Ófeigsfjarðarheiði verði komið á yfirfall í lok júní ár hvert, einmitt þegar ferðamenn fari að koma á svæðið. „Þá verður komið vatn í fossana.“ Mest myndi draga úr rennslinu í fossinum Drynjanda í Hvalá. „Þessir fossar eru ekkert fallegir þegar það er mikið í þeim, þá eru þeir bara mórauð froða. Þeir eru fallegastir þegar það er hæfilega lítið í þeim.“

Pétur segist fyrst og fremst hlynntur virkjuninni vegna þess að með henni verði raforkuöryggi Vestfjarða bætt. Ekki sé ásættanlegt að varaaflstöðvar, keyrðar á dísilolíu, eða fjarvarmaveitur, keyrðar með svartolíu, séu notaðar. Hvað Árneshrepp snertir segir Pétur að hreppsbúar búi við umtalsvert betra afhendingaröryggi raforku í dag en íbúar á norðanverðum Vestfjörðum. Hins vegar sé enn aðeins eins fasa rafmagn í Árneshreppi, ekki þriggja fasa eins og mörg fyrirtæki þurfa til að reka sína starfsemi.

„En það sem ég horfi mest á að fá út úr þessu sjálfur eru samgöngur,“ segir hann og lýsir því hvernig troðningurinn inn í Ófeigsfjörð, eins og hann kallar hann, fer með bíla sem aka um hann.

„Það hefur enginn hingað til verið að vafra þarna um …
„Það hefur enginn hingað til verið að vafra þarna um heiðina,“ segir Pétur um ferðamennsku á Ófeigsfjarðarheiði. Aðeins örfáir menn, nokkrir tugir, hafi gengið yfir hana frá því að hann man eftir sér. „Það er ekki fyrr en í sumar sem menn hafa verið að ganga þarna upp eftir.“ mbl.is/Golli

Strandavegur mun njóta góðs af framkvæmdum

Samkvæmt breytingartillögu að aðal- og deiliskipulagi, sem nú bíður afgreiðslu hreppsnefndar Árneshrepps, á að byggja upp veginn frá bænum Melum í Trékyllisvík og inn í Ófeigsfjörð svo að frekari rannsóknir og undirbúningsvinna fyrir virkjanaframkvæmdirnar geti hafist. Pétur segist sannfærður um að sá vegur verði fær öllum bílum enda standi til að nýta hann til mikilla þungaflutninga á framkvæmdatímanum.

Það er þó vegurinn milli Norðurfjarðar og Bjarnarfjarðar, suðurleiðin, sem heimamenn líta á sem mesta farartálmann, aðallega á vetrum, og hafa beðið um bætur á. Sá vegur er á færi Vegagerðarinnar og stendur ekki til að VesturVerk byggi hann upp líkt og veginn inn í Ófeigsfjörð. Pétur hefur þó enga trú á öðru en að sú leið muni njóta góðs af fyrirhuguðum virkjanaframkvæmdum. Hann bendir auk þess á að vegurinn yfir Veiðileysuháls sé þegar inni á samgönguáætlun og að til standi að ráðast í bætur á honum fljótlega. Þeir sem segi að vegurinn suður með Ströndum muni ekki njóta góðs af framkvæmdunum hljóti að tala gegn betri vitund.

Getur verið of seint að bjarga byggðinni

Íbúum Árneshrepps hefur fækkað hratt undanfarin ár og áratugi. Pétur segist ekki vita hvort að virkjun myndi snúa þeirri þróun við. „Byggðin fer að minnsta kosti ekki frekar í eyði vegna framkvæmdanna. Ég hef enga trú á því að þær muni hafa neikvæð áhrif á byggðaþróunina. Það getur vel verið að þetta sé of seint, maður er svo sem hræddur um það.“

Spurður hvort hann óttist áhrif virkjunarinnar á ferðaþjónustu sem verið er að reyna að byggja upp bendir hann á að í 340-350 daga á ári sé þokusúld á heiðinni þar sem til stendur að virkja. Það sé þó misjafnt því inn á milli komi góð sumur. „Það hefur enginn hingað til verið að vafra þarna um heiðina,“ segir Pétur. Aðeins örfáir menn, nokkrir tugir, hafi gengið yfir hana frá því að hann man eftir sér. „Það er ekki fyrr en í sumar sem menn hafa verið að ganga þarna upp eftir.“

Fimm stíflur verða reistar við stöðuvötn á heiðinni, m.a. þetta, …
Fimm stíflur verða reistar við stöðuvötn á heiðinni, m.a. þetta, Neðra-Eyvindarfjarðarvatn. mbl.is/Golli

Aukist ferðamennska muni virkjun á heiðinni lítil áhrif hafa á hana þar sem skerðing af hennar völdum verði lítil að hans mati. Kyrrðin verði enn til staðar. „Það er alveg jafnmikil þögn upp með Eyvindarfirðinum og undir stíflu þó að það sé minna vatn í ánni.“

Pétur hefur mun frekar trú á því að betri vegur inn í Ófeigsfjörð sem og línuvegur sem til stendur að leggja yfir Ófeigsfjarðarheiðina og vestur í Djúp, verði til þess að fleiri komi á svæðið. Hann segist þekkja árnar á svæðinu manna best og ekkert gera til þó að vatnsmagnið í þeim minnki. „Ég hef alltaf litið á þetta meira sem farartálma.“

Spurður hvort hann sýni þeim sjónarmiðum skilning að ósnortin víðerni beri að vernda svarar hann: „Ekki ef að fólk á að gjalda þess. Ekki ef það á að láta heilan landshluta gjalda þess. Þá skil ég það ekki. Vegna þess að það er ekki verið að eyðileggja neitt með þessari framkvæmd. Ég get einfaldlega ekki séð að þetta sé nokkur eyðilegging.“

Öfund og ekkert annað

Í Árneshreppi eru skiptar skoðanir um virkjunina. Sumir hafa jafnvel skipt um skoðun síðustu mánuði. „Ég hef aldrei verið á móti þessu, mér hefði aldrei dottið það í hug,“ segir Pétur. „Við fáum samgöngurnar, við fáum rafmagn. Og við fáum síma,“ segir hann og á þar við að farsímasamband sé varla til staðar inni í Ófeigsfirði.

Nú hefur þú fjárlagslegra hagsmuna að gæta í málinu. Finnst þér það trufla þig og þinn málsstað?

„Maður hefur komist að því þegar farið er að tala um þetta að þá er það öfund. Þegar maður heyrir að sagt hafi verið í eldhúsum að þessir peningar fari allir á eina hendi þá er það bara öfund. Ekkert annað. Það er svolítið slæmt ef sveitarfélagið á að gjalda fyrir það og jafnvel allur Vestfirðingafjórðungurinn.“ 

mbl.is

Bloggað um fréttina