Fimm leituðu á bráðamóttöku vegna flugeldaáverka

Alls leituðu fimm manns á bráðamóttöku Landspítalans í nótt vegna …
Alls leituðu fimm manns á bráðamóttöku Landspítalans í nótt vegna flugeldaáverka, sem eru heldur færri en í fyrra. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Þetta var annasöm nótt hjá okkur, eins og svo oft áður í kringum áramót,“ segir Bergur Stefánsson, sérfræðingur á bráðamóttöku Landspítalans, í samtali við mbl.is.

Flestir leituðu á bráðamóttöku sökum hálkuslysa og áfengisneyslu, en færri vegna flugeldaáverka.  

Ung stúlka fékk flugelda í höndina og hlaut áverka á hendi og andliti. Fékk hún aðhlynningu lækna og var útskrifuð nú snemma morguns.

Alls leituðu fimm manns á bráðamóttöku Landspítalans í nótt vegna flugeldaáverka, sem eru heldur færri en í fyrra. 

Að sögn Bergs eru augnslys áberandi minni í ár en oft áður, sem hann mjög gleðilegt. „En auðvitað er alltaf verið að leika sér að eldinum með þessa flugelda.“

Álag á bráðamóttökunni jókst strax á gamlárskvöld, en Bergur segir það merkilegt hvað fáir þurfa á aðstoð að halda á meðan sýning á áramótaskaupinu stendur yfir.  „En svo kom þetta upp úr miðnætti, þá fór að tínast til.“

Heldur var farið að róast á bráðamóttökunni þegar blaðamaður mbl.is náði tali af Bergi, en búast má við að álagið aukist á ný þegar líða fer á nýársdag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert