Strokufanginn fór út um glugga á Sogni

Sindri strauk frá Sogni í nótt.
Sindri strauk frá Sogni í nótt. Grunnkort/Map.is

Fanginn sem strauk úr fangelsinu að Sogni í nótt, Sindri Þór Stefánsson, er ekki talinn hættulegur að sögn Gunnars Schram yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Um afdrif Sindra Þórs segir Gunnar „það er í sjálfu sér óvíst en við erum að kanna ýmislegt, til dæmis hvort hann hafi hugsanlega farið úr landi.“

Gunnar segir leit lögreglunnar að Sindra enn á byrjunarstigi og hefur því ekki verið kallaður út liðsauki að svo stöddu, en tölvupóstur var sendur í morgun á alla lögregluþjóna landsins.

Aðeins þeir lögreglumenn sem eru á vakt taka þátt í leitinni á þessu stigi. Lögreglan á Suðurnesjum er þó í samstarfi við öll lögregluumdæmi landsins vegna málsins, ásamt fangelsismálastofnun „og ekki síst almenning“ bætir Gunnar við.

Þeir sem geta veitt upplýsingar um ferðir Sindra Þórs eru beðnir um að hafa samband við lögregluna.

Var í opnu fangelsi

Sindri Þór hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 2. febrúar vegna gagnaversmálsins, þar sem 600 tölvum var stolið sem taldar eru vera 200 milljóna króna virði. Lögreglan hefur ekki fundið þýfið í þessu umfangsmesta þjófnaðarmáli Íslands.

Sogn, þar sem Sindri Þór var vistaður, er opið fangelsi og eru því ekki jafnmiklar takmarkanir á frelsi fangi. „Þó hurðar séu læstar verður að hafa í huga að þetta er svokallað opið fangelsi og okkur skilst að hann hafi farið út um glugga“ segir Gunnar.

Sindri Þór hefur áður komist í kast við lögin, en hann hefur hlotið dóma vegna sölu og dreifingu eiturlyfja, aksturs undir áhrifum fíkniefna, innbrota og þjófnaðar.

mbl.is