Býðst til að borga í lagningu rafstrengs og ljósleiðara frá Hólmavík til Árneshrepps

Bræðurnir Gunnar Gaukur Magnússon og Valdimar Steinþórsson, sem eru tveir …
Bræðurnir Gunnar Gaukur Magnússon og Valdimar Steinþórsson, sem eru tveir af eigendum Vesturverks, ásamt Agli Ara, syni Gunnars Gauks, á Ófeigsfjarðarheiði í apríl árið 2015. Voru þeir þar ásamt fleirum við undirbúning fyrir vatnamælingar sem fram fóru þá um vorið og haustið.

Vesturverk, sem hyggst reisa Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði í Árneshreppi, á nú í viðræðum við Orkubú Vestfjarða um að hraða lagningu þriggja fasa rafstrengs og ljósleiðara frá Hólmavík til hreppsins. Ef af virkjun verður býðst fyrirtækið til að taka þátt í kostnaði verkefnisins. Hluti af lagningu strengjanna er þegar kominn á veg en áætlanir Orkubúsins hafa hingað til gert ráð fyrir að henni ljúki ekki fyrr en að einhverjum árum liðnum. „Aðgengi að orku er eitt af frumskilyrðum þess að virkjunin rísi,“ segir Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri Vesturverks, í samtali við mbl.is. „Af framkvæmdum verður ekki fyrr en þessi tenging er komin á eða búið verður að tryggja orkuna með öðrum hætti.“

Ófeigsfjörður, þar sem vinnubúðir fyrir starfsmenn á framkvæmdatíma yrðu og þaðan sem vegir myndu liggja að framkvæmdasvæðinu, er í eyði. Því yrði nauðsynlegt að koma á bættum fjarskiptum og rafmagni áður en virkjanaframkvæmdir hæfust.

 „Segjum að allt gangi að óskum og að við verðum komnir með framkvæmdaleyfi [fyrir virkjuninni] eftir næstu áramót, þá yrði jafnvel hafist handa við lagningu strengjanna strax næsta sumar,“ segir Gunnar Gaukur. „Strengjalagningin myndi svo líklega taka tvö ár.“

Myndi gagnast hreppsbúum betur

Niðurstaðna í þessum viðræðum við Orkubúið er að vænta á næstu vikum. Áður hafði Vesturverk lagt til að lítil vatnsaflsvirkjun yrði reist í Ófeigsfirði til að  útvega rafmagn sem þyrfti á framkvæmdasvæðinu. Frá þeim áætlunum hefur nú verið horfið.

Sú leið að koma að fjármögnun lagningar rafstrengs og ljósleiðara frá Hólmavík, um Árneshrepp og alla leið inn á framkvæmdasvæðið í Ófeigsfirði er að sögn Gunnars Gauks nú talin hagkvæmari og myndi að auki gagnast hreppsbúum betur. „Það er engin spurning. Þarna fengju þeir strax úrbætur í raforku- og fjarskiptamálum.“

Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri Vesturverks, í kaffi hjá Pétri Guðmundssyni …
Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri Vesturverks, í kaffi hjá Pétri Guðmundssyni í Ófeigsfirði. Pétur býr ásamt fjölskyldu sinni í bænum í Ófeigsfirði á sumrin en þar hefst enginn við á veturna.

Skipulagsstofnun biður um svör

Hvalárvirkjun er í orkunýtingarflokki rammaáætlunar um verndun og nýtingu landssvæða og umhverfismat framkvæmdarinnar hefur þegar farið fram. Gert hefur verið ráð fyrir virkjuninni á aðalskipulagi Árneshrepps í nokkur ár en frekari breytinga á skipulaginu er þörf. Ákveðið var að auglýsa hluta breytinganna í haust og voru þær samþykktar á fundi sveitarstjórnar hreppsins í janúar og sendar Skipulagsstofnun til staðfestingar. Stofnunin óskaði hins vegar í síðustu viku eftir svörum við ákveðnum spurningum sem lúta að skipulagsgerðinni og aðkomu sveitarstjórnarmanna.  

Skipulagið tekur ekki gildi fyrr en stofnunin hefur staðfest það en á því er m.a. gert ráð fyrir uppsetningu vinnubúða og lagningu vinnuvega um hið fyrirhugaða virkjanasvæði. Höfðu áætlanir Vesturverks gert ráð fyrir að sú vinna hæfist í vor eða sumar. Að sögn Gunnars Gauks reyndist það hins vegar ekki  raunhæft og hafði verið horfið frá því fyrir nokkru.

Spurður hvort að bréf Skipulagsstofnunar muni hafa áhrif á áætlanir Vesturverks segist Gunnar Gaukur ekki eiga von á teljandi töfum af þeim sökum. „Þetta eru allt eðlilegar spurningar sem Skipulagsstofnun óskar svara við og mun vonandi ekki setja alvarlegt strik í okkar reikning.“

Krossneslaug í Árneshreppi er mjög vinsæll viðkomustaður ferðamanna á sumrin. …
Krossneslaug í Árneshreppi er mjög vinsæll viðkomustaður ferðamanna á sumrin. Úr henni er einstakt útsýni yfir Húnaflóann. Gunnar Gaukur gerir ráð fyrir að starfsmenn í fyrirhugaðri Hvalárvirkjun myndu sækja í laugina. mbl.is/Birkir Fanndal Haraldsson

Hann vonast nú til þess að einhvern undirbúning sé hægt að hefja í haust að því gefnu að búið verði að samþykkja skipulagsbreytingarnar og að framkvæmdaleyfi vegna veglagningarinnar og vinnubúðanna hafi verið gefið út.

Ennfrekari aðalskipulagsbreytinga er svo þörf. Þannig á eftir að gera ráð fyrir endanlegri útfærslu virkjunarinnar. Vinna að þeim tillögum er nú á lokasprettinum að sögn Gunnars Gauks. Enn er óvíst hvenær þær verða auglýstar.

Alþekkt vinnubrögð

Í bréfi Skipulagsstofnunar til sveitarstjórnar Árneshrepps er óskað svara við tilhögun skipulagsgerðarinnar. Tveir fulltrúar í sveitarstjórn, sem ekki eru fylgjandi virkjuninni og greiddu atkvæði gegn skipulagsbreytingunum, líta svo á að sveitarstjórn hafi ekki verið heimilt að fela Vesturverki að vinna að tillögu að breytingu á aðalskipulagi.

Spurður út í þetta segir Gunnar Gaukur að Vesturverk hafi óskað eftir því við sveitarstjórn Árneshrepps að Verkís fengi að vinna að gerð skipulagstillagnanna. Á það hafi verið fallist. Verkís hafi svo hafið skipulagsgerðina út frá hugmyndum Vesturverks um virkjunina. „Það eru nú nánast öll samskiptin,“ segir hann. Vesturverk hafi greitt fyrir vinnu Verkís og segir hann slíkt alþekkt í sambærilegum málum á Íslandi og að Hæstiréttur hafi staðfest lögmæti þess með dómi. „Við gerðum þetta á nákvæmlega sama átt og tíðkast hefur.“

Það var svo sveitarstjórn Árneshrepps sem auglýsti tillögurnar og óskaði eftir athugasemdum við þær. Verkís gerði svo grein fyrir athugasemdum og svörum við þeim í skýrslu sem var meðal þeirra gagna sem Skipulagsstofnun fékk í hendur um leið og henni voru sendar skipulagsbreytingarnar til staðfestingar.

Áratuga barátta fyrir samgönguumbótum

Árneshreppur er fámennasta sveitarfélag landsins eftir afar mikla fólksfækkun undanfarna áratugi. Íbúar eru rúmlega 40 og rúmlega helmingur hefur þar vetrarsetu. Eitt barn er á grunnskólaaldri og skólanum var lokað um síðustu  áramót. Í apríl og maí er þar kennsla fyrir einn nemanda. Íbúarnir hafa árum og áratugum saman krafist þess að samgöngur til hreppsins verði bættar en hægt hefur þokast í þeim málum.

Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri VesturVerks.
Gunnar Gaukur Magnússon, framkvæmdastjóri VesturVerks. Ljósmynd/Bæjarins besta

Í nýútkominni matsskýrslu um samfélagsáhrif Hvalárvirkjunar á Árneshrepp, sem Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) vann fyrir Vesturverk, segir m.a. að Hvalárvirkjun myndi ekki „sjálfkrafa hafa áhrif til uppbyggingar á Strandvegi milli Bjarnarfjarðar og Árneshrepps“ en sá vegkafli er lykilatriði í vegtengingu hreppsins. Hluti hans er ófær í margar vikur yfir vetrartímann.

Gunnar Gaukur bendir í samtali við mbl.is á þetta sama og segir að samgönguumbætur og önnur innviðauppbygging, sem eru á forræði ríkisins og íbúar í hreppnum hafa kallað eftir, séu ekki í hendi þótt af virkjun verði. Því hafi Vesturverk boðist til að taka þátt í ýmsum verkefnum innan hreppsins, m.a. lagningu ljósleiðara og hitaveitu í hluta hans, endurbótum á skólahúsi, lagfæringu á bryggjusvæði og byggingu gestastofu í Ófeigsfirði.

Tilboð Vesturverks „nýstárleg leið“

Í bréfi Skipulagsstofnunar er sveitarstjórn beðin að svara athugasemdum Landverndar, náttúruverndarsamtakanna Rjúkandi og sveitarstjórnarmannanna tveggja um þetta tilboð en þessir aðilar telja að óeðlilegt sé að framkvæmdaaðili heiti  fjárhagslegum stuðningi við tiltekin verkefni í hreppnum verði af virkjun.

Í skýrslu RHA segir að hluti þeirra innviðaverkefna sem fyrirtækið heiti stuðningi við tengist virkjunarframkvæmdunum beint. „Varðandi hin atriðin sem ekki gera það má segja að þessi nálgun fyrirtækisins gagnvart hreppnum og umfang þess sem boðið er sé nokkuð nýstárlegt í íslensku samhengi. Þó þekkist að greiddar hafi verið bætur og kostuð verkefni s.s. í tengslum við gerð Blönduvirkjunar,“ segir í skýrslunni. Þá segir: „Það hefur vakið tortryggni að helsti hagsmunaaðili verkefnisins leggi fram þessi tilboð.“

Fram kemur að samningar um svipuð verkefni þekkist erlendis og þá sem yfirlýstur hluti af undirbúningi viðkomandi framkvæmda. Þeir séu gjarnan gerðir áður en mati á umhverfiáhrifum er lokið.

Vikum saman á hverjum vetri er ekki snjómokstur í Árneshreppi. …
Vikum saman á hverjum vetri er ekki snjómokstur í Árneshreppi. Á Gjörgri, þar sem þessi mynd er tekin, er flugvöllur og þangað er flogið tvisvar sinnum í viku á þeim tíma sem landleiðin er ófær. mbl.is/Sunna Logadóttir

Gunnar Gaukur segir að enn sem komið er hafi engin svör við tilboðunum borist frá sveitarstjórn Árneshrepps. Hann segir enga sérstaka fyrirmynd hafa verið að tilboðinu, hvorki frá Íslandi né erlendis frá. Hins vegar hafi tilboðið verið svar við ákalli hreppsbúa um innviðauppbyggingu samhliða virkjuninni. „Á kynningarfundi vegna aðalskipulagsbreytinganna sem haldinn var í maí í fyrra  og á tveimur óformlegum fundum sem við höfum átt með hreppsnefnd Árneshrepps kom fram skýr vilji heimamanna til þess að Vesturverk legði eitthvað af mörkum til samfélagsins. Tilboð okkar verður til í kjölfar þessara funda.“

Einkafyrirtæki - ekki ríkisfyrirtæki

Gunnar Gaukur segir eðlilegt að tilboðið sé háð því að af virkjun verði. „Við erum einkafyrirtæki ekki ríkisfyrirtæki. Þannig að við förum ekki í [þessi verkefni] nema að við séum að koma þarna á staðinn, það er alveg á hreinu.“

Í skýrslu RHA kemur fram að erlendis komi stjórnvöld stundum að samningagerð sem þessari og spurt er hvort að slíkt geti átt við í þessu tilviki. Gunnar Gaukur segir það vel koma til greina. „Það hafa nú hingað til ekki legið aurar lausir í kerfinu til að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir Árneshrepp. Þannig að við höfum hvorki reiknað með einu né neinu úr þeirri átt. En við erum opnir fyrir öllu.“

Hvað varðar samgöngubætur milli Norðurfjarðar og Bjarnarfjarðar, sem hefur lengi verið ein helsta krafa hreppsbúa, segir Gunnar Gaukur Vesturverk eiga erfitt um vik. „Viðhald og lagning vega og snjómokstur á þeim eru á ábyrgð Vegagerðarinnar og þar með ríkisins og það er ómögulegt fyrir einkafyrirtæki eins og okkur að hafa mikil áhrif á það.“

Krafa sett í útboðsskilmála

Gert er ráð fyrir 350 ársverkum við byggingu Hvalárvirkjunar sem standi yfir í tvö og hálft til þrjú og hálft ár. Um 200 starfsmenn yrðu á svæðinu á sumrin og um 70 á veturna. Í skýrslu RHA um áhrif þessa þáttar á samfélagið í Árneshreppi segir að gera megi ráð fyrir að aðföng og sérfræðiþjónusta vegna framkvæmdanna komi fyrst og fremst frá stöðum utan Árneshrepps. Hins vegar gætu tækifæri skapast fyrir heimamenn, m.a. sauðfjárbændur, á störfum á meðan á framkvæmdum stæði. Á rekstrartíma sé þess ekki að vænta að tilkoma virkjunarinnar breytti miklu fyrir atvinnulífið. Virkjuninni yrði fjarstýrt en gestastofa í Ófeigsfirði myndi skapa sumarstörf.

Að mati skýrsluhöfunda gætu útsvarstekjur vegna erlendra starfsmanna við framkvæmdirnar orðið á annað hundrað milljónir á framkvæmdatímanum. Þeir benda á að talsverð óvissa sé um þetta en mikið utanumhald og eftirfylgni þurfi til að þeir séu skráðir með búsetu á staðnum.

Nyrstu bæirnir í Árneshreppi eru farnir í eyði. Þangað sækja …
Nyrstu bæirnir í Árneshreppi eru farnir í eyði. Þangað sækja ferðamenn á sumrin til að njóta náttúrufegurðar og kyrrðar. mbl.is/Golli

Gunnar Gaukur segir að tryggt yrði að sem stærstur hluti starfsmannanna yrði með lögheimili í Árneshreppi. Í útboðsskilmálum yrðu settar fram kröfur um slíkt fyrir hvern og einn þátt framkvæmdarinnar. „Við munum að sjálfsögðu reyna að tryggja hreppnum sem mestar tekjur.“

Engin verslun í vinnubúðum

Hvað aðrar tekjur sveitarfélagsins af mögulegri virkjun áhrærir gætu fasteignatekjur numið 20-30 milljónum króna árlega en það mat er háð talsverðri óvissu. „Ef jöfnunarsjóðsframlagið yrði að engu með aukalegum tekjum, sem þó alls ekki er víst, má gera ráð fyrir að tekjur sveitarsjóðs aukist um 7 [milljónir króna] vegna fasteignaskatts af virkjunarmannvirkjum,“ segir í skýrslunni en þetta framlag stjórnvalda nam 16,6 milljónum króna árið 2016.

Á framkvæmdatíma er að mati skýrsluhöfunda líklegt að langmest af þeirri þjónustu sem þyrfti yrði sótt út fyrir Árneshrepp. Þó megi búast við að starfsmenn við framkvæmdirnar notfærðu sér verslunina í Norðurfirði og þjónustu sem annars er miðuð að þörfum ferðamanna. Þegar rekstrartíminn tæki við megi búast við að lítil áhrif yrðu á þjónustu í hreppnum.

Gunnar Gaukur segir að í vinnubúðum starfsmanna yrði mötuneyti en engin verslun. Hann telur víst að starfsmennirnir myndu því nýta sér þá þjónustu sem er í boði í Norðurfirði. „Ég get vel ímyndað mér að sundlaugin í Krossnesi yrði vinsæl og að starfsmennirnir myndu koma við í kaupfélaginu í leiðinni.“

Val á staðsetningu tengipunkts

Vesturverk hefur frá því í haust átt í viðræðum við Landsnet um mögulega tengingu Hvalárvirkjunar við meginflutningskerfi raforku. Sú vinna er tímafrek þar sem virkjunin yrði langt frá núverandi kerfi og því að mörgu að hyggja. Hugmyndin er sú að leggja jarðstreng frá virkjuninni yfir Ófeigsfjarðarheiði og að tengivirki sem setja þyrfti upp í Ísafjarðardjúpi. Þaðan yrði rafmagnið svo mögulega leitt yfir Kollafjarðarheiði og að Vesturlínu.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

 Gunnar Gaukur segir að Landsnet vinni nú m.a. að því að ákveða nákvæma staðsetningu tengipunktsins í Ísafjarðardjúpi. Að fleiri undirbúningsþáttum sé einnig unnið. „Þannig að þetta er í góðu ferli hjá Landsneti.“

Hann segir alls ekkert annað koma til greina af hálfu Vesturverks en að leggja raflínuna yfir Ófeigsfjarðarheiði í jörðu. „Sú krafa okkar til Landsnets er skýr og frá henni verður ekki hvikað. Við getum ekki rekið þarna virkjun og átt svo að treysta á flutning raforkunnar um loftlínu á einu alversta veðravíti landsins. Það kemur ekki til greina.“

Gunnar Gaukur segir að ekki sé kominn endanlegur kaupandi að raforkunni sem Hvalárvirkjun myndi framleiða. Ekki sé hægt að ganga frá slíku fyrr en tímasetningar um afhendingu orkunnar liggi fyrir. „En það er eftirspurn eftir orkunni. Það er ekki áhyggjuefni að hún seljist ekki. Við höfum þegar undirritað viljayfirlýsingu um sölu á 8 MW til fyrirhugaðrar kalkþörungaverksmiðju í Súðavík.“

Engin kennsla hefur farið fram í grunnskólanum í Árneshreppi frá …
Engin kennsla hefur farið fram í grunnskólanum í Árneshreppi frá áramótum. Mikil fólksfækkun hefur verið viðvarandi í hreppnum síðustu áratugi. mbl.is/Golli

Samfélag sem háir varnarbaráttu

Í lokakafla skýrslu RHA er fjallað um áhrif fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar á andann í samfélaginu á Ströndum. Vitnað er til reynslunnar af öðrum virkjanaframkvæmdum, m.a. við Blöndu og á Austurlandi, og tekið fram að reynslan sé stundum sú að þrátt fyrir mikil átök í aðdraganda framkvæmda virðist allt geta fallið nokkurn veginn í ljúfa löð að þeim loknum.

„Það sem veldur áhyggjum í tilviki Hvalárvirkjunar, í tengslum við andann í samfélaginu, eru þær deilur sem hafa átt sér stað um verkefnið, einkum síðasta árið,“ segja skýrsluhöfundar sem benda á að þessar deilur eigi sér ekki síst stað meðal fólks sem standi utan samfélagsins en láti sig svæðið, einkum náttúru þess, sig miklu varða. Þá séu skiptar skoðanir á málinu innan hreppsins sem geti spillt samskiptum fólks í öðrum og óskildum málum. „Þetta er afleit staða fyrir jafn fámennt samfélag og hér um ræðir sem háir varnarbaráttu og þarf á samstöðu að halda en má tæplega við slíkum flokkadráttum. Verkefnið um Brothættar byggðir gæti verið hjálplegt í þessu sambandi en þar hefur markvisst verið sneitt hjá málum sem tengjast virkjunaráformum.“

Ítarefni:

Skýrsla Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri um mat á samfélagsáhrifum Hvalvirkjunar á Árneshrepp.

Skýrsla RHA um mat á samfélagsáhrifum Hvalárvirkjunar á Vestfjörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert