Fjórum sinnum verið slökkt á ofninum

Frá því að starfsemi hófst í kísilveri PCC Bakka á …
Frá því að starfsemi hófst í kísilveri PCC Bakka á Húsavík hefur fjórum sinnum þurft að slökkva á ofni verksmiðjunnar og ræsa að nýju. mbl.is/Hari

„Þetta kom óþægilega við mann og maður hafði auðvitað mestar áhyggjur af starfsfólkinu og hvort að það væri í hættu en sem betur fer var það ekki svoleiðis,“ segir Hafsteinn Viktorsson, forstjóri PCC Bakka, í samtali við mbl.is.

Eldur kom upp í ofnhúsi ofnsins Birtu í kísilverinu um klukkan hálfátta gærkvöld. Greiðlega gekk að slökkva eldinn en um allsherjarútkall var að ræða og sinntu tæplega 30 slökkviliðsmenn slökkvistarfi um tíma. Frumniður­stöður benda til þess að eld­ur­inn hafi byrjað í ein­um af ofng­eym­um sem mata hrá­efni inn í ofn­inn og breiðst þaðan yfir í raf­skautap­all­inn.

Skemmd­ir eru ekki tald­ar veru­leg­ar og mun fyr­ir­tækið ein­beita sér að því að gang­setja hinn ofn verk­smiðjunn­ar, Boga, og hefja fram­leiðslu aft­ur sem fyrst. Á meðan verður allt kapp lagt á að gera ofn­inn Birtu, rekstr­ar­hæf­an á meðan. „En þetta þýðir að við munum ekki framleiða kísil í þessum ofni í einhvern tíma, segir Hafsteinn, sem vonast til að framleiðsla verði komin aftur í gang eftir tíu daga.

Hann segir eldsvoðann mikið áfall. „Við vorum komin á flug með ofninn og farin að framleiða hágæðavöru þegar þetta gerist. Þetta er heilmikið áfall. En það birti yfir þegar maður gerði sér grein fyrir því að fólk var ekki í hættu og enginn slasaðist.“

Ekki tengsl á milli rafmagnsleysis og eldsvoða

Rafmagnslaust varð á öllu svæði kís­il­vers­ins i gærmorgun og í voru neyðarskor­stein­ar opnir í um 45 mín­út­ur þegar raf­magn kom aft­ur á. Hafsteinn segir að engin tengsl séu á milli rafmagnsleysisins og eldsvoðans. „Það hefur ekkert með þetta að gera. Það varð villa í tölvubúnaði sem brást vitlaust við þannig að það þurfti að opna neyðarskorsteinana tvo. Í hvert skipti sem slökkt er á ofnunum eða eitthvað fer úrskeiðis þá eru neyðarskorsteinarnir opnaðir og það hefur gerst nokkrum sinnum.“ Þetta er í fjórða sinn sem neyðarskorsteinar eru opnaðir frá því að kísilverið hóf starfsemi í lok apríl

Hafsteinn telur að starfsemin hafi samt sem áður gengið ágætlega frá því að fyrsti ofninn var gangsettur 30. apríl. „Heilt yfir hefur margt gengið ágætlega. Við höfum lent í fleiri bilunum í minni kerfum en við bjuggumst við. Allt í kringum ofninn og mengunarvarnir hefur virkað mjög vel en það hafa verið truflanir varðandi krana og það hafa verið tiltölulega einföld kerfi sem hafa verið að valda okkur mestum vandræðum og koma okkur á óvart.“

PCC Bakka ber skylda til að tilkynna til Umhverfisstofnunar þegar ofninn er stöðvaður og neyðarskorsteinarnir opnaðir og segir Hafsteinn að því hafi verið fylgt eftir. Eldsvoðinn í gær hefur einnig verið tilkynntur til stofnunarinnar. „En hann hafði engin umhverfisáhrif og ég veit ekki hversu mikinn áhuga þeir hafa á þessu,“ segir Hafsteinn.

Viðarbrennslulykt finnst þegar slökkt er á ofninum 

Frá því að annar ofn kísilversins var gangsettur 30. apríl hefur fjórum sinnum verið slökkt á honum, fyrst vegna tæknilegrar bilunar, tvisvar vegna viðhalds málmhreinsibúnaðar og nú vegna eldsvoða. 

Þó slökkt sé á ofninum og hann ekki í rekstri er enn mikill hiti í honum. Það veldur því að væg viðarbrennslulykt getur borist til Húsavíkur. Hafsteinn segir hins vegar að engin lykt hafi fundist það sem af er degi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert