Sparkað í og stappað á Ragnari

Valur Lýðsson við upphaf aðalmeðferðar á Selfossi í síðustu viku.
Valur Lýðsson við upphaf aðalmeðferðar á Selfossi í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á líkama Ragnars Lýðssonar voru tveir áverkar, sem teljast máttu lífshættulegir, sagði Sebastian Kunz réttarmeinafræðingur, sem bar vitni fyrir Héraðsdómi Suðurlands í dag í máli Vals Lýðssonar sem ákærður er fyrir að hafa orðið bróður sínum að bana á heimili sínu 31. mars sl.

Kunz krufði lík Ragnars 3. apríl síðastliðinn og eins og fram kemur í ákæru var það mat Kunz að dauða Ragnars hefði borið að með óeðlilegum hætti, líklegast saknæmum. Dánarorsök Ragnars var banvæn innöndun magainnihalds, í kjölfar afleiðinga þungra högga á höfuðið.

Alvarlegasti áverkinn á höfði Ragnars var langur skurður vinstra megin á enni, sem mikið blæddi úr. Kunz sagði að útilokað væri að sá áverki hefði verið afleiðing falls, þar sem ekki voru neinar rispur við jaðar skurðarins. Hans mat er að þann áverka, sem og fleiri á höfði Ragnars og líkama, megi skýra með því að sparkað eða stappað hafi verið á höfði hans, af manni sem var ekki klæddur í skó.

Hinn lífshættulegi áverkinn sem Ragnari var veittur var á hægri síðu hans. Þar voru mörg rifbein brotin, í kjölfar mikilla sparka eða stapps af hendi manns sem annaðhvort var berfættur eða í sokkum. Tvö rifbeinanna voru brotin á þá vegu að þau stungust inn í lifur og lungu Ragnars. Áverkar, bæði á rifbeinunum og baki, koma að sögn Kunz ekki heim og saman við falláverka.

Sebastian Kunz, réttarmeinafræðingur kom fyrir Héraðsdóm Suðurlands í dag og …
Sebastian Kunz, réttarmeinafræðingur kom fyrir Héraðsdóm Suðurlands í dag og fór yfir krufningarskýrslu sína. Mynd úr safni. mbl.is/Hanna

Lítið blóð var í kringum áverka á lifur hins látna, sem Kunz segir að bendi til þess, þar sem lifrin sé blóðríkt líffæri, að sá áverki hafi verið veittur annaðhvort rétt fyrir andlát Ragnars eða eftir það. Lifraráverkinn var þó einn og sér banvænn, sagði Kunz. Ragnar hefði látist vegna innvortis blæðinga af hans völdum, hefði hann ekki fengið læknisaðstoð, strax eða fljótlega.

Kunz var beðinn að áætla hversu mörg högg eða spörk Ragnar hefði hlotið. Hann sagði að áverkar á höfði hans skýrðust af að minnsta kosti fjórum mismunandi höggum eða spörkum, auk þess sem spörk eða stapp á háls og höfuð gætu útskýrt það að einn hryggjarliður Ragnars var brotinn.

Aðalmeðferð í máli Vals Lýðssonar er fram haldið í Héraðsdómi …
Aðalmeðferð í máli Vals Lýðssonar er fram haldið í Héraðsdómi Suðurlands í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Réttarmeinafræðingurinn sagðist ekki geta áætlað hversu mörg spörk eða stöpp skýrðu bæði sex mismunandi áverka á baki Ragnars og hin fjölmörgu brotnu rifbein, sem sum hver voru brotin á tveimur mismunandi stöðum.

Gat ekki losað sig við magainnihaldið

„Hinn látni kastaði upp, sem er þekkt viðbragð hjá einstaklingi sem hefur hlotið skaða á höfði, innanskúmsskaða, og að teknu tilliti til þess að þegar hann byrjar að kasta upp var hann með lítilli meðvitund, ef einhverri, var hann ófær um að hósta upp innihaldi magans, sem eru þau viðbrögð sem einstaklingur með meðvitund myndi framkalla,“ sagði Kunz um dánarorsökina.

Kunz sagði að það væri möguleiki á því að áfengismagn í blóði hins látna (2,44%) hefði haft áhrif á dauða hans, en það færi eftir því hversu vanur hinn látni hefði verið því að neyta áfengis. Réttarmeinafræðingurinn sagði að ef hann gæfi sér að hinn látni hefði verið vanur áfengisneyslu myndi hann ekki telja áfengið ástæðu þess að Ragnar náði ekki að framkalla æluviðbragð. Það ályktar Kunz út frá því að fyrir meðvitundarleysinu hafi þegar verið önnur skýring; alvarlegur höfuðáverki.

Hér í Héraðsdómi Suðurlands á Selfossi er fullsetinn salur þeirra sem eru nákomnir bæði þeim látna og þeim ákærða. Myndum úr krufningu Ragnars hefur verið varpað á tjald í salnum, til útskýringar á þeim margvíslegu alvarlegu áverkum sem hann hlaut. Óhætt er að segja að það hafi eðlilega fengið töluvert á viðstadda, sem fylgjast hér með framhaldi aðalmeðferðar yfir Vali Lýðssyni, sem búist er að við að ljúki í dag með munnlegum málflutningi saksóknara og verjanda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert