Dæmdur fyrir að brjóta gegn barnabarni

Héraðsdómur Reykjaness
Héraðsdómur Reykjaness mbl.is/Ófeigur

Karlmaður var í júlí dæmdur í héraðsdómi í þriggja og hálfs árs fangelsi fyrir að brjóta kynferðislega gegn barnabarni sínu þegar drengurinn var 10 til 12 ára gamall. Áttu brotin sér stað á heimili mannsins og ömmu drengsins þegar drengurinn var þar í heimsókn og gisti hjá þeim.

Var maðurinn fundinn sekur um að hafa snert kynfæri drengsins í fjölda skipta og fróað honum og þuklað í kringum kynfæri hans í fjölda skipta. Þá var maðurinn einnig dæmdur sérstaklega fyrir eitt skipti þar sem hann og drengurinn lágu báðir uppi í rúmi. Lyfti maðurinn sænginni og sagði við drenginn að limur hans væri „rosalega stór“ og spurði drenginn hvort hann mætti finna hvað hann væri „harður“ og snerti kynfæri hans í framhaldinu.

Málið kom upp árið 2016 eftir að drengurinn sagði foreldrum sínum og bróður frá því að afinn hefði brotið gegn sér. Sagði hann jafnframt að amma sín hefði í nokkur skipti orðið vitni að athæfi afans en ekkert aðhafst. Hafði faðir drengsins og sonur ákærða mannsins samband við barnaverndarnefnd daginn eftir og tilkynnti málið. Bað nefndin lögreglu að hefja rannsókn á málinu daginn eftir.

Afinn neitaði sök í málinu og vísaði til andlegs heilsufars drengsins. Dómurinn taldi hins vegar sýnt fram á með niðurstöðu sálfræðinga að þrátt fyrir áfallastreituröskun væri drengurinn afar samkvæmur sjálfur sér og að ekkert annað áfall en meint brot afans gætu skýrt áfallastreituröskun hans.

Er framburður drengsins talinn skýr og er notast við hann við úrlausn málsins: „Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða dómsins að meta verði framburð brotaþola í málinu trúverðugan. Að sama skapi þykja þau atriði sem rakin hafa verið draga úr trúverðugleika framburðar ákærða. Samkvæmt því og þegar allt það sem að framan er rakið er virt heildstætt þykir dómnum mega leggja hinn trúverðuga framburð brotaþola til grundvallar við úrlausn málsins,“ segir í dóminum.

Afinn sagði drenginn sjálfan hafa fróað sér undir sæng þegar hann gisti hjá sér og ömmunni og hafi hann því talað við drenginn um sjálfsfróun. Hafi hann jafnframt lyft sænginni og haft á orði að limur drengsins væri stór og hefði spurt hvort hann mætti finna hversu harður hann væri. Hins vegar hefði ekkert kynferðislegt verið við þetta atvik.

Þá sagðist hann jafnframt hafa bent drengnum á að leita á Wikipedia að upplýsingum um píkur þegar þeir hefðu rætt um kynfæri kvenna í eitt skipti. Hefðu þá fjölmargar myndir birst sem afinn sagði hafa verið meira en hann átti von á og vísaði til slakrar þekkingar sinnar á virkni netsins.

Telur dómurinn ekki óvarlegt að slá því föstu að fjöldi atvika þar sem afinn hafi snert kynfæri drengsins og fróað honum hafi að minnsta kosti verið sjö.

Litið er til ungs aldurs drengsins við ákvörðun refsingar og að brotin séu alvarleg og framin á nokkurra ára tímabili. „Þá nýtti ákærði sér þá yfirburðastöðu sem hann hafði gagnvart barnungum sonarsyni sínum,“ segir í dóminum. Auk fangelsisdóms er maðurinn dæmdur til að greiða 1,7 milljónir í miskabætur og 4,1 milljón í sakarkostnað, auk þóknunar verjanda síns og réttargæslumanns drengsins, samtals að upphæð tæplega fjórar milljónir.

Dómurinn í heild á vefsíðu Héraðsdóms Reykjaness.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert