Vongóður um að þingstörfin vinnist betur

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, heilsar forsetahjónunum við þingsetningu í …
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, heilsar forsetahjónunum við þingsetningu í dag. mbl.is/Hari

„Ég vænti þess að við munum eiga gott og uppbyggilegt samstarf á nýju löggjafarþingi og vona að störf okkar megi verða landi og þjóð til heilla,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, þegar hann ávarpaði þingheim við setningu Alþingis í dag. Áður las hann  minningarorð um fyrrverandi alþingismann, Inga Tryggvason, sem lést nýverið.

Steingrímur fór yfir óvenjulegar aðstæður þingstarfa síðastliðin tvö ár. „Þing var ekki sett á árinu 2016 fyrr en í desember og á árinu 2017 var Alþingi sett tvisvar með þriggja mánaða millibili, í september og desember það ár,“ sagði Steingrímur og telur hann því að þingstörfin ættu að vinnast betur og skipulegar nú þegar heilt þing er fram undan.

Aðstoðarmenn þingflokka ráðnir á kjörtímabilinu

Í núgildandi stjórnarsáttmála er lögð sérstök áhersla á að efla Alþingi og sagði Steingrímur það ánægjulegt. „Þessi áhersla hefur endurspeglast bæði í fjárlögum fyrir þetta ár og í fjármálaáætlun. Í samræmi við heimildir fjárlaga ársins verða á næstunni stigin skref til að auka bæði gæði lagasetningar og efla fjárstjórnar- og eftirlitshlutverk Alþingis,“ sagði Steingrímur. Í því felst meðal annars ráðning nýrra sérfræðinga sem Steingrímur segir að sé langt komið. „Þá er í fjárlögunum aukið framlag til sérfræðiþjónustu við þingflokka,“ bætti hann við.

Stærstu breytinguna í þessum efnum sem í vændum er segir Steingrímur vera aðstoð við þingflokka. „Ætlunin er að styrkja verulega starf þeirra á þessu kjörtímabili með ráðningu aðstoðarmanna þingflokka þegar á þessu þingi og svo framvegis á næstu tveimur árum.“

Starfsáætlun þingsins ætti að liggja fyrir fyrr

Steingrímur óskaði eftir því í ræðu sinni að starfsáætlun þingsins lægi fyrir fyrr á árinu en á fyrri þingum og lagði hann áherslu á mikilvægi þess að markviss og raunhæf þingmálaskrá ríkisstjórnar væri til staðar fyrir upphaf þingsetningar. „Það er þýðingarmikið að þingmenn geti á grundvelli hennar og vikuáætlana skipulagt störf sín vel.“

Þá minntist Steingrímur á þá nýbreytni sem tekin var upp á þessu ári að forsætisráðherra kemur til samráðsfunda um samskipti Alþingis og Stjórnarráðsins og um þingmálaskrána. Tveir slíkir fundir hafa þegar verið haldnir, sá fyrri í apríl og nú við upphaf þings.

Að loknu ávarpi frestaði forseti Alþingis þingsetningarfundi til klukkan fjögur síðdegis. Þegar fundurinn hefst að nýju verður hlutað um sæti þingmanna og fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2019 verður útbýtt.

Alþingi var sett í dag, 11. september 2018, í 149. …
Alþingi var sett í dag, 11. september 2018, í 149. sinn. mbl.is/​Hari
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert