Dæmdur fyrir brot gegn stjúpdóttur

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt mann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir blygðunarsemisbrot og brot gegn barnaverndarlögum. Maðurinn braut gegn stjúpdóttur sinni með því að hafa í tvígang kíkt í gegnum skráargat á hurð að baðherbergi  þar sem stúlkan var að baða sig.

Maðurinn var jafnframt dæmdur til að greiða 727.720 krónur í sakarkostnað.

Héraðssaksóknari ákærði manninn í mars fyrir kynferðisbrot og brot gegn barnaverndarlögum gegn stjúpdóttur.

Í fyrsta lagi fyrir að hafa í eitt skipti í desember 2015, á þáverandi sameiginlegu heimili þeirra, sært blygðunarkennd stúlkunnar með því að kíkja í gegnum skráargat á hurð að baðherbergi  þar sem stúlkan var að baða sig.

Í öðru lagi fyrir að hafa í desember 2016, á þáverandi sameiginlegu heimili þeirra, sært blygðunarkennd stúlkunnar með því að kíkja aftur í gegnum skráargat á hurð að baðherbergi, þar sem stúlkan var inni.

Stakk grillpinna í gegnum skráargatið

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll í síðustu viku, að móðir stúlkunnar hafi tilkynnt málið til lögreglu 5. desember 2016. Maðurinn var handtekinn í kjölfar tilkynningarinnar og færður í fangageymslur lögreglu. Hann gaf skýrslu vegna málsins daginn eftir og gekkst hann þá við því að hafa stungið grillpinna í gegnum skráargat á baðherbergishurð á heimili fjölskyldunnar í þeim tilgangi að sjá inn í herbergið þar sem brotaþoli var inni. Um ástæðu þeirrar háttsemi sinnar gat maðurinn ekki borið. Hann kannaðist hins vegar ekki við að hafa gert nokkuð af þessum toga áður.

Stúlkan greindi lögreglu frá tveimur tilvikum þar sem hún taldi að stjúpfaðir hennar hefði kíkt á hana þegar hún var inni á baðherbergi. 

Leitaði að klámefni

Lögreglan rannsakaði m.a. síma mannsins og síðu hans á samskiptamiðlinum Facebook. Þar mátti finna ítrekaðar afsökunarbeiðnir hans til stúlkunnar og móður hennar án þess að fram kæmi á hverju hann væri að biðjast afsökunar. Í tölvum mannsins fann lögregla enn fremur nokkurt magn leitarstrengja þar sem leitað hafði verið eftir klámefni sem tengdist kynlífi á milli stjúpföður og stjúpdóttur.

Fram kemur að maðurinn og móðir stúlkunnar séu skilin. Þau munu hafa sótt um skilnað í desember 2016.

Rannsókn lögreglu lauk í apríl 2017. Ákæra var síðan gefin út á hendur ákærða 1. mars 2018, að því er fyrr segir. 

Þegar málið var þingfest 9. maí 2018 kom maðurinn fyrir dóm og neitaði sök samkvæmt báðum liðum ákæru. Við upphaf aðalmeðferðar málsins sagði hann þá afstöðu sína óbreytta, að því er segir í dómi héraðsdóms. 

Vanvirðandi háttsemi sem átti sér stað á heimili fjölskyldunnar

Héraðsdómur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu, að það mætti slá því föstu, svo ekki yrið vefengt með skynsamlegum rökum, að maðurinn hefði með því að kíkja í gegnum skráargatið á baðherbergis­hurðinni, þar sem hann vissi að stúlkan var inni og hann gat búist við að hún væri lítið eða óklædd, hefði maðurinn sært blygðunarsemi stúlkunnar. Var háttsemin jafnframt vanvirðandi gagnvart stúlkunni. 

Þá segir héraðsdómur, að við ákvörðun refsingar mannsins verði sérstaklega að líta til þess að hann braut gegn stjúpdóttur sinni á heimili fjölskyldunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert