Töldu sykursjúkan dreng sprautufíkil

Drengurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu eftir að hafa verið …
Drengurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu eftir að hafa verið talinn sprauta sig með eiturlyfjum á menntaskólaballi í Hafnarfirði. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Bergljót Davíðsdóttir blaðamaður birti aðsenda grein í nýjasta tölublaði Stundarinnar, þar sem hún greindi frá því hvernig 17 ára dóttursonur hennar, sem er með sykursýki, var vistaður í fangageymslu og beittur harðræði í kjölfar þess að hafa sprautað sig með insúlíni á skólaballi í Hafnarfirði.

Hún segir að hvorki gæslumenn né kennarar á menntaskólaballinu og enn síður lögregla hafi áttað sig á því að drengurinn væri sykursjúkur. Þess í stað var hann grunaður um að vera að sprauta sig með eiturlyfjum, inni á klósetti á menntaskólaballi. Atvikið átti sér stað á haustmánuðum í fyrra.

Bergljót stígur fram með þessa frásögn til þess að vekja athygli á því hversu mikilvægt það sé að fólk þekki einkenni sykursýki og það hvernig skyndilegt sykurfall geti haft áhrif á líðan einstaklinga. Nóvembermánuður er tileinkaður vitundarvakningu um sykursýki.

Ástæða þess að ég segi þessa sögu er einmitt til þess að upplýsa foreldra sykursjúkra barna um að halda vöku sinni. Það er hins vegar ekki nóg. Það er eitthvað að í kerfi þar sem sykursjúkir geta átt von á að hljóta þá meðhöndlun sem drengurinn minn hlaut. Það verður að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig ekki,“ skrifar Bergljót í Stundina, en í samtali við blaðamann mbl.is segir hún líka að enginn eigi skilið að fá sömu meðhöndlun og dóttursonur hennar og að henni hrylli við því að veikt fólk eins og sprautufíklar mæti þessu harða viðmóti lögreglu.

Af Vísindavefnum: Hvað veldur sykurfalli og hverjar eru afleiðingar þess á líðan einstaklings?

Settur í járn og fékk engar skýringar

Bergljót segir drenginn hafa verið færðan í svokallað „dauðaherbergi“ á ballinu og að honum hafi verið haldið þar gegn sínum vilja. „Hann mun hafa verið ósáttur við að fá ekki að fara þaðan, enda bæði ódrukkinn og vitaskuld ekki undir áhrifum efna,“ skrifar Bergljót.

Síðan var lögregla kölluð til, „sem setti hann í járn aftur fyrir bak og fór með hann í fangageymslur. Hann fékk ekki neinar skýringar á þeirri meðferð sem hann hlaut, Hann var bæði æstur og reiður og neitaði að láta loka sig inn í fangaklefa. Járn var þá sett á annan úlnlið hans og var hann dreginn eftir göngum fangageymslu og kastað inn í klefa,“ skrifar Bergljót.

Bergljót Davíðsdóttir.
Bergljót Davíðsdóttir.

Síðan hafði lögregla samband við Bergljótu, sem er búsett í Hveragerði, um klukkan tvö um nóttina. Hún segir að tilviljun ein og einhver óútskýrð tilfinning sem hún fékk hafi ráðið því að hún sjálf var enn stödd á Suðurlandi, en hún hafði ætlað að fara vestur á firði þennan dag.

Bergljót er þakklát fyrir að hafa ákveðið að fresta för sinni. Í samtali við blaðamann mbl.is segist hún telja að mögulega hefði drengurinn ekki lifað nóttina af í fangageymslu lögreglu, án þess að fá viðeigandi meðferð við blóðsykurfallinu sem hann var í, en ef ekkert er að gert er óeðlilegur blóðsykur lífshættulegur, eins og fram kemur á vefnum Skyndihjálp.is.

Hún spurði lögreglumanninn sem hringdi hvort drengurinn hefði verið að drekka. „Hann svaraði neitandi en bætti við með auðheyrðri fyrirlitningu að það væri augljóst að hann hefði innbyrt eitthvað annað en áfengi, það væri ekki nein lykt af honum en það leyndi sér ekki að hann væri í annarlegu ástandi og með froðu í munnvikum,“ skrifar Bergljót, sem varð mjög brugðið við þessar lýsingar og tjáði lögreglu að drengurinn væri með sykursýki eitt og óskaði eftir því að læknir eða sjúkrabíll yrði kallaður til, til að kanna ástand hans, sem gæti verið lífshættulegt.

Sjálf brunaði hún til Reykjavíkur í miklu snarhasti og er hún kom að fangageymslu lögreglu var henni meinuð innganga í fyrstu, en síðan breyttist viðmót fangavarðarins gagnvart henni.

Hann var mjög tvístígandi, sagði að þeir réðu ekki við drenginn og treystu sér ekki til að færa hann niður til mín,“ skrifar Bergljót og segist svo hafa spurt manninn hvers vegna drengurinn væri í fangaklefa og hvers vegna hefði ekki verið hringt í hana fyrr.

Hann hafði í raun engin svör við því en sagði drenginn hafa verið mjög reiðan og meðal annars bitið lögreglumann og brotist um. Ástæðuna kvað hann vera þá að drengurinn neitaði að hreyfa sig þar sem hann spyrnti við því að vera lokaður inni og lagðist á gólfið. Hann gat ekki svarað hvers vegna hann hefði ekki mátt liggja í friði á gólfinu þar til ég kæmi. Ekki heldur hvers vegna þeir hefðu ekki reynt að róa hann, gefa honum að drekka, sýna honum vinsemd og blíðu í stað hörku, hroka og beita ofbeldi. Eðli málsins samkvæmt leiðir það til átaka þegar barist er um og spyrnt við fótum,“ skrifar Bergljót, sem segist hafa fengið þau svör frá lögreglumanninum að það hefði ekki verið um annað að ræða, þar sem drengurinn hefði barist um á hæl og hnakka þegar hann var handtekinn.

„Ég sagði það ekki einkennilegt, hann væri aðeins unglingur og það væru eðlileg viðbrögð saklausra unglinga og raunar allra að berjast um við handtöku,“ skrifar Bergljót, sem náði að lokum að sannfæra lögreglumanninn um að fylgja sér upp til drengsins.

Drengurinn í miklu áfalli og illa haldinn

Ég mun aldrei gleyma þeirri sýn sem við mér blasti þegar ég gekk fyrir drenginn: Hann var læstur innan rimla, blautur, kaldur, bólginn, blár og marinn og á nærbuxum einum klæða sem að auki voru blautar. Hann var í miklu áfalli og illa haldinn. Ég er ekki í vafa um að ef hann hefði sofnað þessa nótt lokaður inni í fangaklefa í því ástandi sem hann var í, hefði getað farið svo að hann hefði ekki vaknað aftur. Þann morgun hefði orðið svartur dagur hjá embætti lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, ef umræddur fangavörður hefði ekki tekið þá ákvörðun að hleypa mér inn,“ skrifar Bergljót, sem segir drenginn hafa hagað sér óaðfinnanlega eftir að hún kom og náði að róa hann. 

„..en hann spurði í sífellu: „Amma, hvað hef ég gert, hvers vegna er farið svona með mig?“ Ég bað hann lengstra orða að vera rólegan og ganga hljóðlega með mér út, við myndum fá skýringu síðar. Á meðan einhver færði honum rifin föt hans ræddi ég við vakthafandi starfsfólk og spurði hvers vegna væri farið með ósjálfráða unglinga á þennan hátt,“ skrifar Bergljót, en fátt var um svör. 

Hún segir drenginn vart hafa verið sestan inn í bílinn er hann var við það að falla í kóma. „Ég var ekki með sykur eða insúlín, en náði að aka á ofsahraða í Ártúnsholt og kaupa þar sykur og drykki. Sprauturnar höfðu verið teknar af honum og eins sykurmælirinn,“ skrifar Bergljót. 

Hún fór með drenginn til læknis daginn eftir, til þess að skoða áverka á líkama hans og einnig til þess að ganga úr skugga um að hann hefði ekki innbyrt nein efni sem hefðu áhrif á heilastarfsemi. Bergljót segir hann hafa reynst hreinan af öllum efnum, en drengurinn man ekkert eftir kvöldinu því að hann var í bíl með vinum sínum á leiðinni á skólaball og þar til hann var á heimleið með ömmu sinni, utan nokkurra minnisbrota án samhengis.

Allt brást sem gat brugðist

Mjög illa reyndist að fá upplýsingar bæði hjá lögreglu og eins skólayfirvöldum. Það var ekki fyrr en mörgum dögum síðar að ég fékk einhverja mynd af því sem hafði gerst,“ skrifar Bergljót, sem sendi í kjölfar þessa atviks erindi til nefndar um störf lögreglu sem úrskurðaði hvort ástæða væri til að kæra lögreglumenn fyrir brot á starfi og var erindið sent til héraðssaksóknara til rannsóknar.

Þar var það rannsakað, en þar sem ekki reyndist vera hægt að benda á neinn einn lögreglumann umfram annan var ákveðið að ákæra ekki. Ég leit hins vegar svo á að ástæða væri til að embætti lögreglustjóra yrði látið sæta ábyrgð með það fyrir augum að farið yrði yfir allar verklagsreglur og þeim síðan breytt í kjölfarið,“ skrifar Bergljót og bætir við að til svo verði þurfi þau hins vegar að fara í mál við ríkið.

Ég hef ekki enn tekið ákvörðun um að fara út í slíkt ferli. Það vakir fyrst og fremst fyrir mér að vekja athygli á að það er eitthvað mikið að innan lögreglunnar og ljóst að meðferðin sem drengurinn hlaut af hálfu lögreglu á ekki að geta gerst ef allt er í lagi. Raunar brást allt sem gat brugðist þetta kvöld. Gæslumenn, foreldrar, sem stóðu vaktina og kennarar skólans, lögregla og fangaverðir,“ skrifar Bergljót.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert