Ferðamaður á hálum ís

Ferðamaðurinn í vanda staddur uppi á ísjakanum í gær.
Ferðamaðurinn í vanda staddur uppi á ísjakanum í gær. Ljósmynd/Kristján E. Karlsson

Erlendur ferðamaður var svo sannarlega á hálum ís á Demantaströndinni svokölluðu við Jöklulsárlón í gær þegar hann varð strandaglópur uppi á ísjaka í miklum öldugangi.

Leiðsögumaðurinn Kristján E. Karlsson var staddur þar skammt frá með sinn hóp og smellti ljósmyndum af ferðamanninum.

„Hann slapp með skrekkinn, það var bara þannig. Þetta var stórhættulegur leikur því þarna var svo mikill öldugangur,“ segir Kristján og bætir við að hann hefði ekkert getað gert til að hjálpa manninum. Það hefði verið glapræði.

Ljósmynd/Kristján E. Karlsson

Maðurinn fór upp á ísjakann til að láta taka af sér mynd en þegar sjóinn fór að flæða að komst hann hvorki lönd né strönd. Var hann fastur þarna í nokkrar mínútur, að sögn Kristjáns, sem setti inn færslu um atvikið á Facebok-síðuna Bakland ferðaþjónustunnar. 

Ljósmynd/Kristján E. Karlsson

Hann segir uppákomur sem þessar vera daglegt brauð bæði á Demantaströndinni og á Jökulsárlóni. Hann segist hafa orðið meira var við hegðun sem þessa hjá asískum ferðamönnum en umræddur ferðamaður var þaðan. „Oft eru þetta aðstæður sem þeir þekkja ekki, eða þarna er náttúruvá sem þeim er ekki kunnugt um,“ greinir hann frá.

Ljósmynd/Kristján E. Karlsson

Kristján kveðst einnig hafa séð barn á ferð á ströndinni sem hafi blotnað. Öldurnar geti verið stórar, þó svo að þær séu ekkert í líkingu við þær sem skella á Reynisfjöru. Aðspurður segir hann að það hefði getað farið illa fyrir ferðamanninum á ísjakanum ef hann hefði dottið ofan í ískaldan sjóinn. Alda hefði til að mynda getað tosað hann út, auk þess sem jöklarnir séu á hreyfingu, sem geti valdið mikilli hættu.

Ljósmynd/Kristján E. Karlsson
Ljósmynd/Kristján E. Karlsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert