Þurfum að fara að stíga erfið spor

Kolbeinn Óttarsson Proppé á fundinum í morgun. Sitjandi eru Rakel …
Kolbeinn Óttarsson Proppé á fundinum í morgun. Sitjandi eru Rakel Garðarsdóttir og Björn Viðar Aðalbjörnsson. Guðrún Sigríður Tryggvadóttir tók þátt í gegnum fjarfundarbúnað. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórnvöld verða að setja þá stefnu að það verði efnahagslegir hvatar fólgnir í því að færa sig í átt að umhverfisvænni framleiðslu. Dæmi um það væri stuðningur við matvælaframleiðslu sem minnkar kolefnisfótspor.

Þetta sagði Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, á opnum fundi flokksins sem haldinn var í morgun. Þar var leitast við að svara spurningum á borð við hvernig Ísland geti mótað sér matvælastefnu til framtíðar þar sem hugað er að lýðheilsu, matvælaöryggi og sjálfbærni. Einnig hvaða áskorunum slík stefna muni mæta á tímum loftlagsbreytinga.

„Lifnaðarhættir okkar eru ekki lengur í boði, alveg sama hvort um er að ræða hvað við kaupum inn eða það að hafa heimtingu á því að í hillum verslana sé allt sem okkur langar í hvaðanæva að úr heiminum. Við verðum að fara að taka þessar erfiðu ákvarðanir og stíga þessu erfiðu spor,“ sagði Kolbeinn.

Hann benti á að reiknað er með því að matvælaframleiðsla heimsins muni þurfa að aukast um 50% fyrir árið 2050 til þess að mæta núverandi neyslu. Á sama tíma er jörðin að hlýna og spurningin væri hvernig á að ná jafnvægi þarna á milli.

„Þetta er gríðarlega stórt verkefni og ætti að vera risastóra verkefni allra stjórnvalda heims,“ sagði Kolbeinn. Hann benti á að iðnvædd ríki á borð við Ísland þurfi að ganga lengra en önnur í átt að kolefnishlutleysi. Nauðsynlegt væri að byrja strax.

„Við þurfum að minnka sótspor hvers einasta matardisks, alveg sama hvað á honum er.“

Gagnrýndi búvörusamning stjórnvalda

Rakel Garðarsdóttir, stofnandi Vakanda sem eru samtök um aukna vitundarvakningu varðandi sóun matvæla, sagði að landbúnaðarstefna sé eitt viðkvæmasta mál sem hægt væri að tala um á Íslandi. Hún sagðist hafa áhyggjur af framtíðarstefnu í þessum málum.

„Við þurfum aðstuðla að heilbrigðu umhverfi fyrir framtíðina. Ef allt er hér í rúst er ekkert hægt að framleiða mat fyrir okkur og þá er engin framtíð. Við getum ekki lifað án matar,“ sagði Rakel.

Hún benti á að matarsóun á Íslandi jafngildi um hálfu tonni á hvern Íslending á ári og aðeins fari lítill hluti af því í lífrænan úrgang.

„Þetta eru auðlindir. Við verðum að líta á það sem við erum að henda sem dýrmæta vöru. Þetta er ekki rusl,“ sagði Rakel.

Þá gagnrýndi hún búvörusamning stjórnvalda fyrir litla áherslu á grænmetisframleiðslu og lífræna framleiðslu almennt, á meðan kjöt- og mjólkurframleiðsla væri í hávegum höfð.

„Markaður fyrir lífræna matvöru er að aukast en er ekki í neinu samhengi við fjárveitingu stjórnvalda.“

Kolbeinn Óttarsson Proppé á fundinum í morgun.
Kolbeinn Óttarsson Proppé á fundinum í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Neyslan er ekki lengur til að lifa af

Björn Viðar Aðalbjörnsson, lektor við matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands, tók fyrir þróun sem hefur verið í matvælaframleiðslu samhliða loftlagsbreytingum. Sem dæmi séu um 40% skordýrategunda í hættu á að deyja út.

Björn sagði þörf vera á stórum breytingum til þess að uppfylla markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

 „Neyslan í dag er ekki lengur til þess að lifa af, heldur lifum við til þess að neyta,“ sagði Guðrún Sigríður Tryggvadóttir, formaður Bændasamtaka Íslands. Í erindi sínu sagði hún að aðstæður á Íslandi væru einstakar þar sem sýklalyfjanotkun í landbúnaði sé lítil. Hér sé hreint vatn og nægt land.

„Við búum svo vel að eiga góðar framleiðsluvörur sem neytendur treysta. Það er ábyrgðarluti að framleiða matvæli,“ sagði Guðrún. Með breyttri hugsun væri hægt að stuðla að því að vistspor flutninga í matvælaframleiðslu væri sem minnst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert