„Ákvörðun FME á röngum staðreyndum“

Lögmenn VR telja að Fjármálaeftirlitið hafi brotið gegn andmælarétti og …
Lögmenn VR telja að Fjármálaeftirlitið hafi brotið gegn andmælarétti og rannsóknarreglu með því að útiloka VR frá málsmeðferðinni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Lögmenn VR telja að Fjármálaeftirlitið (FME) hafi brotið gegn málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga við rannsókn á ákvörðun VR um afturköllun umboðs stjórnarmanna í Lífeyrissjóði verzlunarmanna auk þess sem niðurstaða FME sé ekki í samræmi við staðreyndir málsins. Jafnframt er forstjóri stofnunarinnar sökuð hafa gerst vanhæf þegar hún tjáði sig opinberlega um málið.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í minnisblaði um hugsanlegt dómsmál gegn FME sem lögmenn VR sendu stjórn félagsins áður en ákveðið var að stefna FME og mbl.is hefur undir höndum.

Þar er ákvörðun FME talin ólögmæt þar sem hún var tekin af starfsmönnum stofnunarinnar en ekki stjórn hennar eins og lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi gerir ráð fyrir og að ákvörðunin byggi ekki á fullnægjandi lagastoð.

VR ekki aðili að eigin ákvörðun

Fram kemur að VR hafi verið „algerlega útilokað“ frá málsmeðferð FME þar sem stofnunin vildi meina að VR væri ekki málsaðili þrátt fyrir að málið snéri að ákvörðun stéttarfélagsins. „Með þessu braut FME gegn andmælarétti og um leið fólst í því brot á rannsóknarreglu.“

Þá segir að „FME virðist ekki hafa vitað af framsali stjórnar til fulltrúaráðs.“ Er þar vísað til þess að afturköllun umboðs stjórnarmanna sjóðsins hafi verið tekin í stjórn VR með fyrirvara um samþykki fulltrúaráðs.

„Ljóst er af ákvörðuninni sjálfri að rannsókn málsins var ófullnægjandi enda byggir ákvörðunin á röngum staðreyndum.“ Þannig hafa brot FME á málsmeðferðarreglum haft bein áhrif á niðurstöðu málsins, að mati lögmanna VR.

Forstjórinn vanhæf

Í minniblaðinu segir jafnframt að forstjóri Fjármálaeftirlitsins, Unnur Gunnarsdóttir, hafi gert sig vanhæfa til þess að fjalla um mál Lífeyrissjóðs verzlunarmanna með því að tjá sig opinberlega um málið og að brotið hafi verið á jafnræðisreglu þar sem FME hafi ekki beitt sambærilegri íhlutun áður þrátt fyrir að tilefni hafi verið til þess.

Þá er bent á að Ólafur Reimar Gunnarsson, stjórnarformaður lífeyrissjóðsins, hafi þegar sagt af sér og að heimildir séu fyrir því að skipta út stjórnarmönnum í reglum VR og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna og í meginreglum félagaréttar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert