Furðar sig á þeim sem gera lítið úr Ásgeiri

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, getur ekki orða bundist yfir því …
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, getur ekki orða bundist yfir því hvað margir leggja lykkju á leið sína til að gera lítið úr Ásgeiri Jónssyni seðlabankastjóra vegna þess að hann stamar. mbl.is/Eggert

„Við þurfum greinilega að ræða stam og málhelti meira sem samfélag,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í færslu á Facebook-síðu sinni. Dagur furðar sig á fólki sem hefur gert lítið úr Ásgeiri Jónssyni, sem tók við starfi Seðlabankastjóra í vikunni, sökum þess að hann stamar. 

Dagur segir að eðlilegt sé að ræða kosti og galla manns sem tekur við jafn mikilvægu embætti en hann getur ekki orða bundist yfir því hvað margir  leggja lykkju á leið sína til að gera lítið úr Ásgeiri vegna þess að hann stamar. 

„Ég ólst upp við það að Gauti bróðir stamaði. Mjög illa. Frá frumbernsku man ég eftir kvíðanum og angistinni sem fylgdi þessu og ég man eftir umræðum við foreldra okkar um mikilvægi þolinmæði, bíða, ekki grípa frammí og ekki gera óþarfa mál úr þessu. Það þurfti varla að hafa orð á því að stríðni eða háð væri útilokað,“ skrifar Dagur, sem segist hafa orðið mjög reiður ef hann fann fyrir háði eða stríðni í garð bróður síns. 

Dagur segir vita fyrir víst að Ásgeir hefur með mikilli vinnu unnið mjög úr sínu málhelti. 

„Síðar á ævinni hef ég kynnst því að margt kjarkmesta fólk sem ég hef kynnst hefur þá reynslu að hafa þurfti að glíma við stam. Ég vona að Heiðar Helguson knattspyrnumaður fyrirgefi mér að ég nefni hann sem sérstaka fyrirmynd í þessu efni,“ bætir Dagur við. 

Þá segir hann að þörf sé á að samfélagið ræði stam og málhelti og biður hann fullorðna að hugleiða orð sín. „Ef við krakkarnir gátum tekið tillit og sýnt stuðning fjögurra, fimm ára gömul, hljótum við öll að geta gert það,“ skrifar Dagur og óskar hann Ásgeiri til hamingju með mikilvægt og vandasamt starf.mbl.is