Hátt í 50 útköll í Vestmannaeyjum

„Það er búið að vera talsvert af óveðursútköllum en ekkert …
„Það er búið að vera talsvert af óveðursútköllum en ekkert alvarlegt. Þakplötur hafa losnað og ruslatunnur fokið,“ segir Huginn Egilsson varðstjóri. Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Björgunarfélag Vestmannaeyja hefur sinnt hátt í 50 útköllum það sem af er kvöldi. Samkvæmt varðstjóra lögreglunnar í Vestmannaeyjum hafa útköllin þó flest verið minni háttar.

„Það er búið að vera talsvert af óveðursútköllum en ekkert alvarlegt. Þakplötur hafa losnað og ruslatunnur fokið,“ segir Huginn Egilsson varðstjóri.

Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson

Þá hefur verið lokað fyrir alla umferð út á Eiði þar sem veður er einstaklega slæmt. „Björgunarsveitin mat það þannig að það væri bara ekki stætt að sinna verkefnum þar vegna veðurs.“

Að sögn Hugins skall óveðrið á á sjötta tímanum og versnaði hratt. „Hann er aðeins að snúa sér núna vindurinn. Þessi norðvestanátt sem var er að snúa sér í norðanátt og hún er skárri. En það er enn þá vitlaust veður.“ 

Samkvæmt vef Veðurstofu Íslands hefur mesti vindur á landinu í dag mælst á Stórhöfða í Vestmannaeyjum, 39,6 metrar á sekúndu.

Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
Ljósmynd/Óskar Pétur Friðriksson
mbl.is