Beiðnir bárust nánast stöðugt í nótt

Björgunarsveitarfólk hefur haft í nægu að snúast undanfarinn sólarhring.
Björgunarsveitarfólk hefur haft í nægu að snúast undanfarinn sólarhring. mbl.is/Kristinn Magnússon

Björgunarsveitir hafa sinnt um 600 útköllum síðasta sólarhringinn og flest eru þau á Norðurlandi og í Vestmannaeyjum að sögn Davíðs Más Bjarna­son­ar hjá Slysa­varna­fé­lag­inu Lands­björg. Meðal annars hefur verið óskað eftir aðstoð vegna báta í höfnum í Vestmannaeyjum og í Skagafirði.

Í nótt eru beiðnirnar á milli 100 og 150 talsins. Verulega dró í nótt úr verkefnum á suður- og suðvesturhluta landsins. Á Suðurnesjum lauk þeim um tvö í nótt og á fjórða tímanum í Árnessýslu.

Á Norðurlandi, einkum í Skagafirði og Húnavatnssýslum og á öllu Norðausturlandi, hafa verkefnin verið að berast nánast stöðugt í alla nótt. 

Davíð segir að vel hafi gengið að aðstoða fólk en ástandið sé enn slæmt á norðanverðum Tröllaskaga og þar er einnig rafmagnslaust. Þaðan berast enn tilkynningar um foktjón og á fimmta tímanum í nótt var óskað eftir viðbótarmannskap á Ólafsfjörð því verkefnin voru svo mörg hjá viðbragðsaðilum þar. 

Davíð segir að verkefni björgunarsveita snúist líka um innviði samfélagsins. Að ferja starfsfólk raforku- og fjarskiptafyrirtækja sem og starfsfólk heilbrigðisstofnana á milli staða á vaktaskiptum. Eins er verið að koma sérfræðingum í raforku- og fjarskiptamálum milli staða og aðstoða þá við að koma á varaafli víða.

Fóru að tengivirki á snjóbíl og öðrum sérútbúnum tækjum

„Því það sem menn eru einkum að horfa til þessa stundina er rafmagnsleysið. Raforkufyrirtækin munu í dag senda sitt fólk norður en björgunarsveitir hafa í nótt, einkum undir morgun og í morgun, verið að aðstoða starfsfólkið við að koma á varaafli þar sem það er hægt. Eins að koma fólki að stöðum til að greina bilanir,“ segir Davíð Már.

Hann segir að seint í nótt hafi björgunarsveitir, starfsmenn raforkufyrirtækja og aðrir viðbragðsaðilar komist að tengivirki í Hrútafirði en fara þurfti á snjóbíl þangað og öðrum sérútbúnum tækjum. Rafmagnslaust hefur verið hjá notendum í Hrútafirði, Miðfirði, Laugarbakka og Hvammstanga frá því um miðjan dag í gær. Verið er að skola tengivirkið í Hrútatungu, en þar er ísing og selta. Áður hafði snjó verið mokað burt. Vesturlína er spennulaus vegna þess að ekki hefur verið hægt að spennusetja tengivirkið í Hrútatungu. 

Snemma í morgun komust björgunarsveitir að bóndabæ í Langadal í Austur-Húnavatnssýslu en þar hafði þak af íbúðarhúsi og útihúsi fokið af. Því verkefni lauk um sjö í morgun og búið að gera það sem hægt var að gera.

Um átta í morgun fór björgunarsveitarfólk upp á Fjarðarheiði að aðstoða fólk sem er fast á heiðinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert