Efni í rafmagnsviðgerðir á leið norður

Vinnuflokkur frá Landsneti að störfum við tengivirkið í Hrútatungu í …
Vinnuflokkur frá Landsneti að störfum við tengivirkið í Hrútatungu í nótt. Búið er að spennusetja virkið og rafmagn er komið á Vesturlínu til Mjólkár en notendur á norðanverðum Vestfjörðum fá enn rafmagn í gegnum varaafl. Ljósmynd/Landsnet

Starfsmönnum Landsnets tókst í nótt að hreinsa tengivirkið í Hrútatungu. Í kjölfarið var tengivirkið spennusett og rafmagn komst á Vesturlínu til Mjólkárvirkjunar. Sauðárskrókslína er einnig komin í lag líkt og greint var frá í morgun.

Notendur á Norðvesturlandi fá nú rafmagn frá flutningskerfinu en notendur á norðanverðum Vestfjörðum fá enn rafmagn í gegnum varaafl. 

Breiðdalslína 1, sem tengir flutningskerfið við norðanverða Vestfirði við Mjólká er enn þá úti. Skoðun á stöðu línunnar er í gangi.

Þá er efni í viðgerð á stæðum í Dalvíkurlínu á leiðinni norður og fram undan er að fara í viðgerðir á línunni, að því er segir í Facebook-færslu Landsnets. Varðskipið Þór er nú á leið frá Sigluf­irði til Dal­vík­ur þar sem til stend­ur að nýta skipið sem raf­stöð fyr­ir bæ­inn á meðan beðið er eftir því að viðgerð geti hafist. 

Vinnuflokkar eru í hvíld eftir átök næturinnar á meðan efnið er á leiðinni en viðgerðir hefjast strax upp hádegi.

Rauðu punktunum fer fækkandi sem þýðir að rafmagn er smám …
Rauðu punktunum fer fækkandi sem þýðir að rafmagn er smám saman að komast aftur á. Kort/Landsnet

Þá verður flogið yfir Kópaskerslínu með Landhelgisgæslunni fyrir hádegi til að meta tjón. Tilraunir til að spennu­setja Kópa­skers­línu 1 frá Þeistareykj­um hafa ekki borið árangur. Búið var að af­tengja þann hluta lín­unn­ar frá Silf­ur­stjörnu að Kópa­skeri þar sem vitað var um bil­un á lín­unni. Spennu­setn­ing gekk ekki og því lík­legt að um frek­ari bil­un sé að ræða. Þar eru marg­ir staur­ar brotn­ir og líkt og víða ann­ars staðar er ís­ing og selta á lín­um.

mbl.is