„Vissum ekkert hvað var að gerast“

Jón Þórarinsson ræddi í gær við blaðamann og ljósmyndara.
Jón Þórarinsson ræddi í gær við blaðamann og ljósmyndara. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jón Þórarinsson og fjölskylda á Hnjúki innst í Skíðadal eru meðal þeirra sem hafa þurft að rýma heimili sitt vegna rafmagnsleysis í nágrenni Dalvíkur. Þar sem ekki er hitaveita í sveitinni er notast við rafmagnshitun og var hitastig í húsinu farið að nálgast frostmark þegar tókst að ryðja veginn að heimili þeirra á fimmtudaginn.

Í óveðrinu þurftu þau að styrkja stafn á gripahúsi sem var við að gefa sig. Þar sem öll fjarskipti duttu niður í rafmagnsleysinu; netsamband, símasamband, útvarpssamband og jafnvel Tetra-samband, var fjölskyldan í litlu sambandi við umheiminn. Jón segir að þau hafi reyndar komist í samband við næsta bæ, í um 5 kílómetra fjarlægð, með litlum talstöðvum sem almennt eru notaðar við smalamennsku á haustin. Milli bæjanna hafi þau þannig náð örlitlu slitróttu sambandi sín á milli. „En við vorum ekki með útvarp eða neitt og vissum ekkert hvað var að gerast,“ segir hann.

Jón segist áður hafa upplifað bæði slæmt veður og rafmagnsleysi í Skíðadal. „En samt ekki svona algjöra lokun svona lengi og rafmagnsleysið samhliða því,“ segir hann. Í umfjöllun um óveðrið í Morgunblaðinu í dag segir hann  samt að verst hafi verið að geta ekki hitað húsið upp með neinu.

„Það er áberandi hvað samfélagið allt er óviðbúið svona hamförum,“ segir hann varðandi innviðina. „Þannig upplifum við það. Það er ekki nóg að hafa almannavarnakerfi virkt, það þarf að líta á það í víðara samhengi og til heimasamfélaga á hverjum stað og undirbúa þau undir svona aðstæður.“ Jón telur að allt þetta muni verða til þess að unnið verði að breytingum. „Þær eiga eftir að kenna fólki alveg svakalega mikið, þessar hamfarir.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.790 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »