Bótakröfur nema yfir einni milljón á mann

Frá aðgerðum björgunarsveita á Langjökli.
Frá aðgerðum björgunarsveita á Langjökli. Ljósmynd/Landsbjörg

Áætlað er að bótakröfur tveggja ferðamanna sem fóru í vélsleðaferð með Mountaineers of Iceland á þriðjudaginn nemi yfir einni milljón króna á mann.

Þetta staðfestir Helgi Þorsteinsson sem rekur mál þeirra fyrir lögmannsstofuna Norðdahl & Valdimarsson.

Umbjóðendur hans hafa skrifað opið bréf þar sem þeir lýsa því sem gerðist en lögmaðurinn vill ekki gefa upp nöfn þeirra. Hann bendir á að málið sé á frumstigi, auk þess sem lögreglan fari með rannsókn á því sem gerðist. „Eins og málið lítur við mér núna tel ég líklegt að það verði sýnt fram á gáleysi sem leiðir til bótaskyldu.“

Helgi nefnir að ef Mountaineers of Iceland hafnar bótaskyldu og málið fer fyrir dómstóla þar sem það myndi tapast gæti fyrirtækið þurft að borga töluvert meira. Krafan núna snýst um miskabætur og útlagðan kostnað, auk lögmannskostnaðar. Síðastnefndi kostnaðurinn myndi aukast með lengri málarekstri.

Hópur ferðamanna hefur einnig leitað til Lilju Margrétar Olsen, lögmanns hjá Kötlu lögmönnum, vegna málsins en ekki náðist í hana við vinnslu fréttarinnar.

Aðstæður voru afar erfiðar á Langjökli.
Aðstæður voru afar erfiðar á Langjökli. Ljósmynd/Landsbjörg

Of lágar bætur fyrir þremur árum 

Fyrir þremur árum unnu áströlsk hjón mál gegn Mountaineers of Iceland vegna vélsleðaferðar, þar sem fyrirtækið hafnaði bótaskyldu.

Helgi bendir á að hjónin hafi hvort um sig fengið 300 þúsund krónur í miskabætur, auk þess sem rúmar 80 þúsund krónur fengust fyrir útlögðum kostnaði. Í því máli var krafist hærri miskabóta en fengust. Auk bótanna þurfti Skálpi ehf., rekstrarfélag Mountaineers, að greiða 1,3 milljónir króna í málskostnað.

Helgi telur að þær bætur hafi verið of lágar og tekur fram að í málum sem þessum sé ekki um að ræða refsibætur gagnvart fyrirtækinu heldur bætur fyrir tjónið sem fólkið verður fyrir.

Skilur ef fólk leitar réttar síns

„Ég skil það ef fólk telur sig hafa orðið fyrir miska og að það leiti réttar síns,“ segir Haukur Herbertsson, rekstrarstjóri Mountaineers of Iceland, en vill að öðru leyti ekki tjá sig um mögulega málshöfðun gegn fyrirtækinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert