Telur umsóknir landsréttardómara ekki lögmætar

Ástráður Haraldsson héraðsdómari segir að fari svo, að skipaður dómari …
Ástráður Haraldsson héraðsdómari segir að fari svo, að skipaður dómari við Landsrétt verði að nýju skipaður landsréttardómari, áskilji hann sér rétt til þess að láta reyna á lögmæti þess fyrir dómstólum. mbl.is/Styrmir Kári

Ástráður Haraldsson, héraðsdómari og einn fjögurra umsækjenda um laust embætti landsréttardómara, hefur ritað Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra bréf þar sem fram kemur að hann áskilji sér allan rétt til þess að láta reyna á lögmæti umsókna tveggja þeirra sem sækjast eftir embætti landsréttardómara, á þeim grunni að landsréttardómarar, sem skipaðir hafi verið ótímabundið í embættið, geti ekki sótt um sama embætti og þeir gegna nú þegar.

Hann segir í bréfinu að hann telji að „þessi niðurstaða sé svo augljós af eðlisrökum að varla ætti að vefjast fyrir nokkrum manni,“ en bæði þau Ragnheiður Bragadóttir og Ásmundur Helgason dómarar við Landsrétt sóttu um embættið, samkvæmt tilkynningu dómsmálaráðuneytisins í dag, auk Ástráðs og Söndru Baldvinsdóttur héraðsdómara.

Þau Ragnheiður og Ásmundur hafa verið í leyfi frá störfum að undanförnu, Ásmundur síðan í júlí og Ragnheiður frá því í september, en dómararnir hafa ekki dæmt í málum við Landsrétt frá því í mars, þegar Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að þeir hefðu verið ólöglega skipaðir, ásamt Arnfríði Einarsdóttur og Jóni Finnbjörnssyni.

„Stólaballett eða hnísustökk“ leysi ekki vanda Landsréttar

Ástráður segir í bréfi sínu að „sá vandi sem ólögmæt embættisfærsla dómsmálaráðherra sumarið 2017 skóp dómskerfinu og þeim einstaklingum sem ekki hafa getað gegnt störfum [l]andsréttardómara síðan í mars 2019 [verði] ekki leystur með slíkum stólaballett eða hnísustökki“ sem það sé að færa landsréttardómara úr einu embætti landsréttardómara yfir í annað.

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Hann segir einnig að hann telji að „augljós hætta“ sé á því, verði landsréttardómari skipaður í embættið sem nú er til umræðu, að þeir sem svo kjósi láti reyna á hvort skipunin teljist lögmæt, „einnig í ljósi þess að með slíkri skipun væri í raun verið að gera tilraun til að löghelga eftir á skipun dómara sem þegar hefði verið metin ólögmæt.“

Segist Ástráður telja „talsverðar líkur“ á að niðurstaða dómstóla yrði sú að slik skipan stæðist ekki. „Það væri, svo vægt sé til orða tekið, í ljósi forsögunnar, afar óheppilegt bæði fyrir dómskerfið og umsækjandann ef það yrði niðurstaðan. Slíkur framgangur væri auk þess til þess fallinn að draga á langinn ríkjandi réttaróvissu um framtíðarskipan Landsréttar og fæli í sér afar sérkennileg skilaboð inn í yfirstandandi málarekstur fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Ég tel raunar að Landsréttur megi illa við frekari slíkum skakkaföllum,“ skrifar Ástráður.

mbl.is

Bloggað um fréttina