Yfir 1.100 skjálftar frá 21. janúar

Grannt er fylgst með málum við fjallið Þorbjörn um þessar …
Grannt er fylgst með málum við fjallið Þorbjörn um þessar mundir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frá 21. janúar hafa orðið yfir 1.100 jarðskjálftar í námunda við Grindavík, og hafa um hundrað þeirra orðið frá því á miðnætti. Þetta segir Elísabet Pálmadóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Spurð um skjálftann sem varð klukkan 9 í morgun, 3,3 að stærð, segir hún að tilkynningar hafi borist frá Grindavík um að hann hafi fundist. Þær hafi þó ekki verið margar. „Ætli þau séu ekki bara byrjuð að venjast þessu,“ bætir hún við í léttum tón. 

Skjálftavirknin heldur áfram

„Á meðan við erum að sjá landris og breytingar í jarðskorpunni þá má alveg búast við að jarðskjálftavirknin haldi áfram,“ segir Elísabet. Spurð hvort stórir skjálftar eins og þessi verði daglegt brauð segist hún ekkert geta sagt um það. „Vonandi ekki. En það er ekkert hægt að segja til um það.“

Fjallið Þorbjörn, í bakgarði Grindavíkur.
Fjallið Þorbjörn, í bakgarði Grindavíkur. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert