Meira í vasann þýðir ekki meiri verðmæti

„Verið getur að einhverjir fái meira í vasann þessa verkfallsdaga …
„Verið getur að einhverjir fái meira í vasann þessa verkfallsdaga en meira í vasann þýðir ekki að verðmætið sé meira,“ segir Óskar Örn Ágústsson, fjármálastjóri Eflingar, við mbl.is. mbl.is/Eggert

Greiðslur úr vinnudeilusjóði Eflingar til þeirra félagsmanna sem eru í verkfalli eru einungis styrkur sem ætlað er að bæta félagsmönnum hluta af því launatapi sem þeir verða fyrir við að taka þátt í verkfallsaðgerðum.

Ónákvæmt er að segja að starfsmenn séu betur settir, fjárhagslega, með að sitja heima í verkfalli.

Í morgun fjallaði mbl.is um ábendingu starfsmanns Reykjavíkurborgar, sem benti á að sér þætti áhugavert að sú 18.000 króna greiðsla sem hann sér fram á að fá úr vinnudeilusjóði Eflingar fyrir þær skæruverkfallsaðgerðir sem fram fóru fyrr í mánuðinum, væri hærri en þessi tiltekni starfsmaður fær fyrir daglegt starf sitt á leikskóla í borginni sem ófaglærður leiðbeinandi. Þar er þó ekki öll sagan sögð.

Engar greiðslur í lífeyrissjóði

Efling greiðir félagsmönnum þennan 18.000 króna styrk, sem ætlað er að mæta launatapi og framlagi launagreiðanda í lífeyrissjóð félagsmannsins fyrir heilan vinnudag. Af þessari upphæð verður svo tekin staðgreiðsla tekjuskatts í fyrsta þrepi (35,04%) áður en hún kemur til útborgunar til félagsmanna.

Fyrir utan þetta þá greiðir Efling engin launatengd gjöld og Reykjavíkurborg greiðir að sjálfsögðu ekki heldur neinar aðrar launatengdar greiðslur og þannig eru þeir starfsmenn sem eru í verkfalli ekki að ávinna sér nein lífeyrissjóðsréttindi.

„Verið getur að einhverjir fái meira í vasann þessa verkfallsdaga en meira í vasann þýðir ekki að verðmætið sé meira,“ segir Óskar Örn Ágústsson, fjármálastjóri Eflingar, við mbl.is.

mbl.is