Íslenska lopapeysan nú verndað afurðaheiti

Íslensk lopapeysa þarf að vera handprjónuð á Íslandi svo hún …
Íslensk lopapeysa þarf að vera handprjónuð á Íslandi svo hún teljist sem slík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íslenska lopapeysan er nú skráð sem verndað afurðarheiti með vísan til uppruna en Matvælastofnun samþykkti það nýverið. Það þýðir að ekki má kalla lopapeysur íslenskar nema þær séu handprjónaðar á Íslandi, ullin í þeim sé ekki endurunninn og fleiri skilyrði séu uppfyllt.

Handprjónasamband Íslands sótti um vernd fyrir afurðaheitið fyrir um ári  en um er að ræða annað afurðarheitið sem hlýtur vernd hérlendis frá því að lög þess efnis tóku gildi árið 2015. Áður hlaut heitið „íslenskt lambakjöt“ skráða vernd.

Ullin þarf að vera klippt af íslensku sauðfé

Hverjum þeim sem framleiðir lopapeysu í samræmi við afurðarlýsinguna er heimilt að nota heitið íslensk lopapeysa eða hið enska heiti Icelandic Lopapeysa og nota opinbert auðkennismerki samkvæmt reglugerð.

Skilyrðin fyrir því að flík geti verið kölluð íslensk lopapeysa eru fjölmörg. Peysan þarf að vera handprjónuð á Íslandi, ullin sem notuð er í hana þarf að vera klippt af íslensku sauðfé og má ullin ekki vera endurunnin, peysan þarf að vera  prjónuð úr lopa og fleira. 

Skráð afurðarheiti sem vísar til uppruna nýtur meðal annars verndar gegn beinni eða óbeinni notkun í viðskiptum með afurð sem fellur ekki undir skráninguna og hvers konar misnotkun, eftirlíkingu eða villandi hugrenningatengslum.

mbl.is

Bloggað um fréttina