„Ýmis tækifæri til að ná lendingu“ í kjaraviðræðum

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við stefnum á að ná einhverri lendingu með þessa hópa, við vinnum bara að því í sameiningu,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, spurður um stöðu kjaraviðræðna félagsins við flugfreyjur og flugmenn. 

Flugfreyjufélag Íslands fundar nú hjá ríkissáttasemjara við samninganefnd Icelandair, en tilboði Icelandair sem fól í sér umtalsverðar kjaraskerðingar var einróma hafnað á rafrænum fundi Flugfreyjufélagsins í dag. 

Bogi vildi ekki segja til um það hvort samninganefnd legði fram nýtt tilboð í kvöld eða þá hvað fælist í slíku tilboði. 

„Þetta verkefni stendur bara yfir, sameiginlegt markmið er náttúrulega bara að tryggja samkeppnishæfni félagsins þannig að þetta verði góður vinnustaður hér eftir sem hingað til,“ sagði Bogi.  

Bogi greindi frá því í bréfi til starfsmanna að samningar þyrftu að liggja fyrir áður en hluthafafundur yrði haldinn 22. maí. Flugfreyjufélagið hefur sagst vera óánægt með þetta útspil og sagt Icelandair vera að stilla stéttarfélögum upp við vegg. Bogi segist aftur á móti hafa verið að lýsa stöðu félagsins eins og hún er.

„Þetta var pistill sem ég sendi á alla starfsmenn félagsins, sem ég geri mjög reglulega. Þarna var ég bara að lýsa stöðunni eins og hún var. Við erum að vinna að þessu stóra verkefni, sem verður öllum til hagsbóta. Við þurfum að leysa ákveðin verkefni saman og ég var bara að fara yfir það,“ segir Bogi. 

Bogi segist vera bjartsýnn á að samningar náist fyrir 22. maí. 

„Eins og fram hefur komið hafa þessir samningar langa sögu, eru flóknir og það er ýmislegt í þeim sem hægt er að einfalda þannig að hægt verði að verja ráðstöfunartekjur. Það eru ýmis tækifæri til að ná lendingu í þessu.“

Bogi segir það verða að koma í ljós hvað gerist ef samningar náist ekki fyrir 22. maí. „Allur okkar fókus er á að klára þetta verkefni. Að endurskipuleggja og styrkja efnahagsreikninginn er umfangsmikið og flókið, margir hagsmunaaðilar sem koma að og hagsmunir þeirra sem þarf að samræma,“ segir Bogi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert