Sögðu skilið við prentið og lesturinn tvöfaldaðist

Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta, er ánægður með viðtökurnar.
Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta, er ánægður með viðtökurnar. Ljósmynd/Víkurfréttir

Lestur Víkurfrétta hefur tvöfaldast eftir að blaðið hætti að koma út á prenti og færði sig alfarið yfir á netið.

„Viðtökurnar hafa verið frábærar,“ segir Páll Ketilsson, ritstjóri og eigandi Víkurfrétta. Blaðið var prentað í 8.500 eintökum en heimsóknir í hvert rafrænt dagblað hafa ekki verið undir fimmtán þúsundum.

Þegar kórónuveiran fór af stað hérlendis laskaðist auglýsingamarkaðurinn mikið, auk þess sem Víkurfréttir stóðu frammi fyrir því að Íslandspóstur ætlaði hætta að dreifa blöðunum 1. maí. Ákveðið var að nýta tækifærið og gefa blaðið út eingöngu á rafrænu formi.

Talað við 250 Suðurnesjamenn 

Ef eitthvað er hefur verið gefið í hvað varðar frétta- og blaðamennsku og að sögn Páls hefur blaðið talað við hátt í 250 Suðurnesjamenn síðan kórónuveiran fór af stað. „Við erum að spara okkur prentun og dreifingu. Það hjálpar á sama tíma og auglýsingamarkaðurinn er mjög laskaður,“ segir hann.

Páll bætir við að Víkurfréttir virðast vera að ná betur til yngra fólksins en áður með þessum breytingum. Aftur á móti hafa einhverjir eldri borgarar kvartað yfir því að vera ekki eins tengdir og áður. Ráða þurfi bót á því.

Víkurfréttir fagna 40 ára afmæli í ágúst en blaðið hefur alla tíð komið frítt út. Spurður hvort það muni koma aftur út á prenti segir hann aldrei að vita hvað gerist í haust en ítrekar að rafræna útgáfan hafi verið mun meira lesin en sú prentaða, sem ætti að laða fleiri auglýsendur að.

Kylfingar á golfvelli Keilis í Hafnarfirði.
Kylfingar á golfvelli Keilis í Hafnarfirði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tímarit GSÍ alfarið á netið

Annað blað er komið úr prentuðu formi yfir á netið, eða tímarit Golfsambands Íslands. Hulda Bjarnadóttir, formaður útgáfunefndar tímaritsins, segir ekki vera búið að taka endanlega ákvörðun um að segja skilið við prentuðu útgáfuna.

Hún bendir á að stefnt hafi verið að því lengi að færa sig alfarið yfir á netið sökum mikils kostnaðar við prentuðu útgáfuna. Ákveðið var að stíga skrefið og gefa síðasta tölublað eingöngu út á netinu, enda hafi tímaritið orðið fyrir tekjumissi eins og aðrir vegna COVID-19. Einnig styður rafræna útgáfan við stefnu sambandsins þegar kemur að umhverfisvernd.

mbl.is