Hvorugt gosanna yrði stórt

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur.
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur segist ekki hafa neinar áhyggjur af stöðu mála á Grímsvötnum. Vísindaráð almannavarna segir að gera verði ráð fyr­ir þeim mögu­leika að eld­gos brjót­ist þar út í lok jök­ul­hlaups, sem gæti orðið á næstu vik­um eða mánuðum.

Magnús Tumi segir það vera góðan möguleika á því að þegar hleypur úr Grímsvötnum geti komið gos í kjölfarið en bendir á að flest gos í Grímsvötnum séu ekki mjög stór og að svæðið sé langt frá mannabyggð.

Hann nefnir að gosið 2011 hafi verið mjög stórt og það stærsta í 140 ár. Á hann síður von á því að næsta gos verði svipað. „En það er líklegt að það gjósi á næstu misserum í Grímsvötnum,“ segir Magnús Tumi og bætir við að hegðunin núna sé dæmigerð fyrir þau merki sem við höfum um á svæðinu í nokkur hundruð ár.

Töluvert mikið meira þarf að gerast

Spurður út í stöðuna á Reykjanesi hjá fjallinu Þorbirni þar sem mikil jarðskjálftavirkni hefur verið og landris aukist um 12 sentímetra segir hann að „það þurfi að gerast eitthvað töluvert mikið meira áður en maður fer virkilega að trúa því að það endi í eldgosi“.

Hann segir að ef eldgos verður séu allar líkur á því að það verði ekki mjög stórt. Engu að síður er svæðið svo nálægt byggð að gos gæti valdið miklu tjóni. „Viðbragð almannavarna miðast við að þetta geti endað á versta veg, þannig verðum við að búa okkur undir hlutina.“

mbl.is