Hefur ekki undan neinu að kvarta

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á fundinum í dag.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á fundinum í dag. mbl.is/Arnþór

Sóttvarnalæknir hefur ekkert undan samstarfinu við Íslenska erfðagreiningu að kvarta þó ekki hafi verið gerður skriflegur samningur um aðkomu fyrirtækisins að skimun fyrir kórónuveirunni hérlendis. Hann telur það jafnvel hafa verið skilvirkara með þessum hætti og að líklegast hefði það engu breytt þó samningurinn hefði verið skriflegur, en Íslensk erfðagreining tilkynnti í gær að fyrirtækið myndi hætta aðkomu að skimunum 13. júlí.

„Þessi vinna þeirra byggir á vinnslusamningi við sýkla- og veirufræðideild Landspítalans sem byggir á samningi við sóttvarnalækni. Þetta er allt gert undir formerkjum sóttvarna. Síðan eru menn að vinna og það kemur eitthvað upp á, þá þarf ekki nema eitt símtal til að menn vinni og skoði hlutina betur, sem ég legg þá blessun mína yfir og þannig hefur þessi vinnsla verið,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir um hvað hafi falist í samkomulaginu, en verksamningur Íslenskrar erfðagreiningar við sýkla- og veirufræðideild Landspítalans var síðast endurnýjaður árið 2015.

Enginn reikningur verið sendur

„Þetta byggir á þessum grunnsamningi og ég tel það miklu skilvirkara að geta ákveðið að gera hluti svona eða hinsegin á meðan menn eru ásáttir um að gera það þannig. Ég tel að það hafi skilað mjög miklu að menn hafi getað verið fljótir að taka sýni og greina á ýmsan máta, sem hefur gagnast vel í opinberum sóttvarnaaðgerðum hér á landi. Ég hef ekkert undan þessu að kvarta.“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur sagt að aðkoma fyrirtækisins að skimunum hafi kostað fyrirtækið um 1,2 milljarða á mánuði í fjóra mánuði. Þórólfur segist hafa spurt Kára hvað vinna fyrirtækisins hafi kostað. „Niðurstaðan var sú að hann myndi senda hugsanlega reikning en mér vitanlega hefur það ekki verið gert.“

„Ég veit það ekki, ég hef ekki heyrt neitt frá þeim um að svo verði, enda hefur hann lýst því sjálfur í viðtölum að þessi vinna snúist ekki um borgun heldur um þessa samfélagslegu þjónustu sem þeir hafa svo sannarlega veitt,“ segir Þórólfur spurður hvort hann búist við margra milljarða króna reikningi frá Íslenskri erfðagreiningu.

Skriflegur samningur ekki endilega skipt máli

Á upplýsingafundi almannavarna sagði Þórólfur að Íslensk erfðagreining hafi í gær „nokkuð óvænt“ tilkynnt að aðkomu þeirra að skimun myndi ljúka 13. júlí. Í samtali við mbl.is segir hann það líklega ekki hafa skipt máli í þessu samhengi hvort samningurinn var skriflegur eður ei.

„Ég held að menn geti gert það hvort sem þeir eru með skriflegan samning eða ekki, þá geta menn hætt. Það eru alltaf einhverjir fyrirvarar í svona samningum um það að menn geti rift samningi, og ég er ekkert endilega viss um að það hefði skipt neinu máli í þessu tilliti.“

Nú segir Þórólfur að leita þurfi annarra leiða við skimun á landamærum, sem hann telur nauðsynlegt að halda áfram hið minnsta út júlí. Í því samhengi hefur hann nefnt að fleiri sýni verði greind í einu, eða allt að 10, auk þess sem hann segir hugsanlegt að fleiri lönd verði tekin út af lista yfir hááhættusvæði og að þannig þurfi farþegar frá þeim löndum ekki að fara í skimun.

„Við þurfum að hugsa málið upp á nýtt og beita annarri nálgun. Við getum ekki greint sýni á sama hátt eins og við gerðum, þannig að við þurfum að skoða aðra möguleika.“

mbl.is