Búast megi við fleiri smitum í bænum

Eitt kórónuveirusmit greindist í Ólafsvík í dag.
Eitt kórónuveirusmit greindist í Ólafsvík í dag.

Snæfellsbær varar íbúa sína við því að fleiri smit kunni að greinast í bænum á næstu dögum og vikum. Kórónuveiran hafi sýnt að hún sé ólseig og faraldurinn ekki genginn yfir. Þetta kemur fram í færslu á facebooksíðu bæjarins. Tilefnið er fyrsta smit kórónuveirunnar sem greindist í bænum frá því veiran fór aftur að láta á sér kræla en líkt og greint hefur verið frá í dag er knattspyrnumaður úr Víkingi Ólafsvík smitaður og hefur liðið allt verið sett í sóttkví vegna þess.

Í færslunni segir að bærinn hafi verið lánsamur í fyrri bylgju faraldursins þegar aðeins eitt smit greindist á heilsugæslunni í Ólafsvík snemma í apríl og tiltölulega fáir íbúar þurftu að sæta sóttkví. Nú sé hins vegar ljóst að faraldurinn hafi ekki gengið yfir og engin leið að segja til um framhaldið. Eru bæjarbúar hvattir til að fylgja fyrirmælum og leiðbeiningum sóttvarnalæknis, og fylgjast með fréttum sem og tilkynningum frá bænum.

„Líkt og á vormánuðum tæklum við þessa áskorun sem samfélag með því að standa saman, sýna virðingu og góðvild hvert við annað og með því að gera það sem fyrir okkur er lagt af yfirvöldum,“ segir í lok færslunnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert