Íbúi á Akranesi „aldrei fundið svona áður“

Sigþór Sigurðsson býr á Akranesi og segist aldrei hafa fundið …
Sigþór Sigurðsson býr á Akranesi og segist aldrei hafa fundið jafnvel fyrir jarðskjálfta og í dag. Skjáskot/Facebook

Sigþór Sigurðsson býr á Akranesi og segist aldrei hafa orðið var við viðlíka jarðskjálfta og í dag. Einu sinni áður hafi hann fundið fyrir skjálfta á Akranesi en það var ekkert í líkingu við það sem hann fann í dag. Hann segist hafa hlaupið út til að athuga hvort keyrt hafi verið á hús sitt, svo mikið hafi höggið verið.

„Það eru framkvæmdir hérna fyrir utan heima hjá mér. Það höfðu valtarar og vörubílar verið á vappinu fyrir utan gluggann hjá mér í allan dag, en þegar skjálftinn reið yfir fannst mér líklegast að vörubíll hafi keyrt utan í húsið,“ sagði Sigþór í samtali við mbl.is

„Ég hljóp bara strax út til þess að athuga hvað hafði eiginlega gerst. Hvort einhver hefði bara keyrt hingað inn til mín. Svo var hristingurinn svo mikill að mér leið eins og ég væri á sjó. Maður fékk liggur við bara sjóriðu.“

WOWWW Mér stóð nú ekki á sama. Gardínur sveifluðust og húsið nötraði. Aldrei fundið þetta svona rosalega. Hélt að það...

Posted by Sigþór Sigurðsson on Þriðjudagur, 20. október 2020

Sigþór segir að margir aðrir íbúar á Akranesi hafi orðið varir skjálftans. Á stöðuuppfærslunni hér að ofan segir kona ein í athugasemd að hún hafi orðið skjálftans vör alla leið á Stykkishólmi. 

„Ég hef aldrei fundið svona fyrir þessu áður,“ segir Sigþór. „Þetta er ekki eittthvað sem mann langar að upplifa mikið oftar,“ bætir hann við.

Liverpool-plakatið hékk á veggnum

Sigþór segir að hús sitt hafi leikið á reiðiskjálfi. Gardínur hafi farið á flug og annað sem hékk úr loftinu. Þó var einn hlutur sem stóðst alveg skjálftaprófið og sveiflaðist bara lítillega. Það var stórt Liverpool-plakat sem hangir á veggnum hjá Sigþóri.

Það hlýtur að vera góður fyrirboði um gengi liðsins í ár, eða hvað?

„Það er góðs viti, jú,“ segir Sigþór og hlær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert