Uppsagnir hjá RÚV

RÚV í Efstaleiti.
RÚV í Efstaleiti. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þremur starfsmönnum var sagt upp hjá Ríkisútvarpinu á dögunum sem liður í miklum hagræðingaraðgerðum sem nú standa yfir hjá stofnuninni. Þeir bætast við annan sem var sagt upp í vor.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segir í pósti sem sendur var öllum starfsmönnum að nú sé reynt að verja kjarnastarfsemi stofnunarinnar á sama tíma og að því sé stefnt að ná jafnvægi í rekstri. Tekjufall vegna kórónuveirunnar hefur verið umtalsvert og svo er RÚV ætlað minna fjármagn á fjárlögum næsta árs.

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri. mbl.is/Sigurður Bogi

„Við byrjuðum þegar í vor að bregðast við þessu með ýmsum hagræðingaraðgerðum. Staða mála hefur síður en svo batnað og ljóst er að horfurnar á næsta ári eru mun þyngri en við leyfðum okkur að vona lengi vel. Koma þar bæði til minnkandi auglýsingatekjur og lækkun á þjónustutekjum vegna fyrirliggjandi mats á innheimtu útvarpsgjalds samkvæmt fjárlagafrumvarpi næsta árs. Óhjákvæmilegt er því að grípa til frekari hagræðingaraðgerða í okkar rekstri,“ skrifar Stefán.

Frekari hagræðingarvinna í gangi

Hann segir að sjálfsögðu miður að grípa þurfi til þessara aðgerða og kveðja stjórnendur og starfsfólk sem hefur staðið vaktina af metnaði og fagmennsku undanfarin ár.

„Verkefnum verður dreift til annarra stjórnenda og starfsfólks en fyrirsjáanlegt er einnig að þetta muni raska ýmsum áætlunum og verkefnum í okkar starfi eins og gefur að skilja. Frekari hagræðingarvinna er í fullum gangi enda eru framangreindar aðgerðir ekki nægar til þess að ná utan um þessa stöðu,“ skrifar Stefán.

Útgangspunkturinn í hagræðingunni hefur verið að verja kjarnastarfsemi eins og kostur er, skrifar Stefán.

„Miðlun dagskrár; frétta, upplýsinga, fræðslu og afþreyingar í öllum okkar miðlum. Hagræðingarvinnan undanfarna mánuði hefur því einkum snúið að stoðþjónustu og stjórnunarstörfum og í gær kvöddum við þrjú úr okkar hópi. Þar á meðal eru tveir stjórnendur, annars vegar framkvæmdastjóri sviðs samskipta, notenda og þróunar og hins vegar tæknistjóri.“

mbl.is