Hvers vegna voru Bretar á undan?

Bretar eru fyrstir að heimila notkun bóluefnisins.
Bretar eru fyrstir að heimila notkun bóluefnisins. AFP

Breska lyfjaeftirlitið fékk upplýsingar um framgang rannsókna á Pfizer/BioNTECH bóluefninu um leið og þær bárust. Fyrir vikið eru Bretar á undan öðrum þegar kemur að heimild á notkun bóluefnisins í landinu. 

Fram kemur í frétt CNN um málið að lyfjaeftirlit í Bretlandi hafi heimild til þess að fylgja málum eftir með þessum hætti ef um lofandi rannsóknir er að ræða. Þannig megi tryggja að lyf, eða bóluefni í þessu tilfelli, séu til taks eins fljótt og kostur er. Með þessu móti voru allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að meta áhrif bóluefnisins til taks 23. nóvember. 

Annars konar fyrirkomulag er hjá Lyfjastofnun Evrópusambandsins en skoðun á gögnum rannsókna Pfizer/BionTECH hófst ekki fyrr en 6. október þegar tilkynnt var um að prófunum á bóluefninu væri lokið hjá fyrirtækinu.

Talið er að tilkynning um það hvort notkun bóluefnisins verið heimiluð  muni berast 29. desember í síðasta lagi. Helgast það meðal annars af því að eftir að samþykki Lyfjastofnunar berst fer málið einnig fyrir Evrópuráðið til samþykktar. Ráðið þarf nokkra daga til að búa til regluverk um dreifingu bóluefnisins til landa sem tilheyra sambandinu auk þess að samræma regluverk við það sem fyrir er í aðildarlöndum.

Í Bandaríkjunum verður tillaga um heimild á notkun bóluefnisins tekin fyrir 10 desember og ef allt gengur að óskum kemur fyrsta sending til landsins 15 desember.

mbl.is