„Í mér brennur ennþá hugsjónaeldur“

Kolbeinn Óttarsson Proppé á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
Kolbeinn Óttarsson Proppé á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Magnus Fröderberg/Norden.org

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri-grænna, segir að það hafi verið erfið ákvörðun að bjóða sig fram í annað sæti á lista flokksins í öðru hvoru Reykjavíkurdæmanna eftir að hafa mistekist að ná fyrsta sætinu í Suðurkjördæmi.

Kolbeinn kveðst hafa sett hlutina þannig upp í kollinum á sér að annaðhvort yrði hann þingmaður Suðurkjördæmis eða þá að hann færi að gera eitthvað allt annað. „Síðan settist ég yfir hlutina og fann að í mér brennur ennþá hugsjónaeldur. Ég vil hafa færi á að vinna þeim hugsjónum framgang,“ segir þingmaðurinn og bætir við að sér hafi borist áskoranir, bæði opinberlega og í einrúmi, um að bjóða sig fram í Reykjavík. 

Spurður hvort hann hafi fram að því íhugað að hætta í stjórnmálum segir hann að stjórnmálafólk sem íhugi það ekki sé orðið of fastheldið á sína stöðu.

Endanleg ákvörðun daginn fyrir lokafrest

„Endanleg ákvörðun var ekki tekin fyrr en í gærmorgun þegar ég sat á vinnufundi um hálendisþjóðgarð kl. 9 á laugardagsmorgni,“ segir hann. Þá rann upp fyrir honum að hann væri að berjast fyrir ákveðinni hugsjón. „Þetta minnti mig á þessar hugsjónir sem ég hef og að ég vilji gjarnan geta unnið að þeim,“ bætir hann við en frestur til að skila inn framboði rann út klukkan 17 í dag. 

Kolbeinn Óttarsson Proppé á Alþingi.
Kolbeinn Óttarsson Proppé á Alþingi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ákveðið mengi valdi öfluga heimakonu 

Inntur eftir því hvort ósigurinn í Suðurkjördæmi eigi eftir að há honum í komandi prófkjöri sem fer fram 16.-19. maí kveðst Kolbeinn ekki vita það. Eflaust horfi einhverjir til þess en hann ætlaði sér að leiða í kjördæminu.

„Það var ákveðið mengi þar sem valdi aðra til þess, öfluga heimakonu sem er vel að þessu komin. Núna er ég að bjóða mig fram á mínu heimasvæði og er að tala við mitt heimafólk og það er annað mengi,“ segir hann og vonar að störf sín sem þingmaður verði til þess að hann nái kjöri.

„VG er staðurinn til að vera á“ 

Sex bjóða sig fram í annað sætið í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Auk Kolbeins eru það þingmaðurinn Stein­unn Þóra Árna­dótt­ir, Orri Páll Jóhannsson, aðstoðarmaður umhverfis- og auðlindaráðherra, Elva Hrönn Hjart­ar­dótt­ir, sér­fræðing­ur á þró­un­ar­sviði VR, Andrés Skúla­son, fyrr­ver­andi odd­viti í Djúpa­vogs­hreppi, og Daní­el E. Arn­ars­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­tak­anna '78.

Kolbeinn segir þetta glæsilegan hóp og sýna það svart á hvítu að „VG er staðurinn til að vera á“. Jákvætt sé að fólk sem hafi starfað innan hreyfingarinnar sé að bjóða sig fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert