Tímabært að endurskoða fjölmiðlalögin

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur að það sé tímabært að endurskoða fjölmiðlalögin. Hún segir óásættanlegt og óeðlilegt að fyrirtæki reyni að beita sér í kjöri innan Blaðamannafélags Íslands (BÍ).

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra vildi ekki tjá sig um málið að svo stöddu en sagði að það biði betri skoðunar.

Lilja Alfreðsdóttir, sagði málið bíða betri skoðun
Lilja Alfreðsdóttir, sagði málið bíða betri skoðun mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Kjarn­inn og Stund­in full­yrða að Sam­herji hafi gert til­raun­ir til þess að hafa áhrif á for­manns­kjör Blaðamanna­fé­lags Íslands í von um að koma í veg fyr­ir að Sig­ríður Dögg Auðuns­dótt­ir, ný­kjör­inn formaður, yrði nýr formaður fé­lags­ins. Vísað er í upplýsingar úr sta­f­ræn­um sam­skipt­um nokk­urra starfs­manna Sam­herja.

„Ég hef áður lýst þeirri skoðun minni að mér finnst Samherji hafa gengið alltof langt. Bæði með auglýsingum sem fyrirtækið hefur verið að birta gagnvart nafngreindum einstaklingum og fjölmiðlamönnum,“ sagði Katrín í samtali við mbl.is eftir fund ríkisstjórnarinnar í dag.

Hún segir það óásættanlegt og óeðlilegt að fyrirtæki geri tilraun til að beita sér í kjöri formanns Blaðamannafélagsins, hvað þá ef um er að ræða hugmyndir um að beita sér innan stjórnmálaflokka gagnvart því hvernig þeir stilli upp lista. „Þá eru fyrirtæki farin langt fram yfir þau mörk sem við teljum eðlilegt í samfélaginu.“

Kallað hefur verið eftir að stjórnvöld móti spillingarvarnir, í framhaldi af því sem fram hefur komið varðandi tilraunir Samherja. Aðspurð hvort henni þyki líklegt að mál Samherja verði til umræðu á næsta ríkisstjórnarfundi segir Katrín að um sé að ræða margháttuð mál, sem mörg lúti að fjölmiðlalöggjöfinni.

„Það er kominn tími til að endurskoða fjölmiðlalögin, bæði út frá stöðu blaðamanna en líka út frá of miklum sveigjanleika í tengslum við skoðanaauglýsingar. Nú erum við alltaf að herða reglurnar um stjórnmálaflokkana, hvað þeir megi og megi ekki gera, um leið erum við með opið regluverk um aðila sem birta þessar skoðanaauglýsinga,“ segir Katrín.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert