Langaði frekar að deyja

„Mig langaði frekar að deyja en bíða, það er engin …
„Mig langaði frekar að deyja en bíða, það er engin spurning. Þótt ég eigi átján og tvítuga stráka sem ég elska út af lífinu, þá var þetta óyfirstíganlegt. Ef einhver hefði rétt mér pillu til að klára þetta hefði ég tekið hana,“ segir Ásta sem þurfti að bíða tvo daga eftir aðgerð eftir slæmt hestaslys. mbl.is/Ásdís

Ástþrúður Kristín Jónsdóttir, kölluð Ásta, tekur á móti blaðamanni í íbúð sinni í Bryggjuhverfinu þar sem hún hefur búið sér og sonum sínum fallegt heimili. Hún býður í bæinn en Ásta gengur hægum skrefum um íbúðina, enda finnur hún til í hverju skrefi eftir skelfilegt hestaslys. Ásta býður upp á svalandi sódavatn og kemur sér vel fyrir í mjúkum bláum sófa þar sem hún rekur sögu sína, en lífið snerist sannarlega á hvolf fyrir tveimur mánuðum.

Þetta var rosalegt högg

Ásta stundaði hestamennsku sem unglingur en hafði lagt það sport á hilluna, enda enginn tími í annasömu lífi. Nú þegar drengirnir hennar eru nánast komnir til manns sá hún sér leik á borði að byrja aftur.

Hinn tólfta apríl, fyrir rétt um tveimur mánuðum, rifu örlögin hressilega í taumana. 

„Sonur minn hringdi í mig kvöldið fyrir slysið og spurði: „Ertu ekki örugglega að nota bakbrynjuna á hestbaki?“ Ég svara honum að ég hefði gleymt því síðustu skipti, en ég skuli muna það þennan dag. Ég hengdi brynjuna á hurð í hesthúsinu svo ég myndi örugglega ekki gleyma henni. Þannig að þennan dag fór ég í hana,“ segir Ásta, sem lagði svo af stað með tveimur vinkonum og var stefnan sett á svokallaðan hraunhring. Þær stöllur ákveða svo að fara stærri hring, í átt að Kaldárseli um gamla Hvaleyrarvatnsveginn; veg sem er ætlaður fyrir alla, hesta, hjól og gangandi.

„Þetta var geggjaður dagur og við ekkert að flýta okkur. Svo komum við að brekku þar sem er þéttur skógur á báða bóga en þarna er ein mjög skörp beygja og erfitt að sjá fyrir hana. Við erum þarna á hægu brokki þegar ég sé fjallahjólafólk koma á móti okkur á fjúkandi siglingu. Ég hrópa „stopp, stopp, stopp“ og datt í hug að henda mér af baki en svo gerist allt svo ofboðslega hratt,“ segir hún. 

Ásta byrjaði aftur í hestamennsku á síðasta ári, en veit …
Ásta byrjaði aftur í hestamennsku á síðasta ári, en veit nú ekki hvort hún fari aftur á bak. Ljósmynd/Aðsend

„Maðurinn bremsar á hjólinu með tilheyrandi væli og látum og svo kemur hún og bremsar líka og stoppar. Þau bregðast alveg rétt við en akkúrat koma þau þá inn í sjónsvið hestanna. Og þó að ég sé á mikið tömdum fjórtán vetra hesti, þá prjónar hann og báðir hestarnir taka á rás til baka niður brekkuna á fljúgandi ferð. Svo kemur beygja og þar dettur vinkona mín af baki og við það fælist minn hestur. Ég var einmitt rétt að ná stjórn á mínum hesti þegar það gerist, en þarna var bíll sem hafði verið mjög illa lagt, hálfur út á veginn. Hesturinn er þá um það bil að fara á bílinn en tekur hopp fram hjá honum og þá kastast ég af baki og lendi á bílnum. Ég hryn niður og er að reyna að ná andanum. Þetta var svo rosalegt högg og tíminn er lengi að líða þegar maður nær ekki andanum,“ segir Ásta og nefnir að ef bíllinn hefði ekki verið þarna hefði hún náð stjórn á hestinum. 

„Það er mitt ískalda mat.“

Grét af kvölum

Þegar þarna er komið liggur Ásta upp við dekk bílsins og segist strax hafa gert sér grein fyrir að hún væri stórslösuð.

„Ég bara vissi það. Það komu strax svo skelfilegar vítiskvalir og ég var með meðvitund allan tímann. Vinkona mín rotaðist hins vegar og missti meðvitund um stundarsakir. Hún rankar svo við sér og ég ligg þarna með áhyggjur af henni. Þá kemur hjólafólkið hlaupandi og þau fara að hlúa að okkur, alveg í sjokki. Þótt ég gæti varla andað var ég að reyna að ná stjórn á aðstæðum og bið þau að hringja á sjúkrabíl,“ segir Ásta og segist halda að það hafi tekið hátt í hálftíma fyrir sjúkrabílana að koma.

„Mér var líka svo ofboðslega illt innan á lærunum; þau loguðu bara. Svo voru skerandi verkir út frá mjóhrygg, eins og væri verið að reka hníf í bakið. Það var ofboðslega erfitt að bíða og það mátti ekkert koma við mig. Ég bið hjólamanninn að halda undir hjálminn hjá mér, sem hann gerir. Ég man ekkert hvernig þau líta út, en man ég hugsaði hve heppin ég væri að þau væru að hlúa að okkur. Þetta var bara slys,“ segir hún og telur að bakbrynjan hafi bjargað miklu.

„Næsta sem gerist er að kona kemur og segir: „Lenti einhver á bílnum mínum? Ekki að það skipti máli.“ Svo bara sest hún undir stýri og keyrir í burtu,“ segir Ásta sem bað hjólafólkið að ná mynd af bílnum því hún vildi að sjúkraflutningsmennirnir gætu áttað sig á hvað hefði gerst.

„Mig langar að vita hvað henni gekk til með því að keyra í burtu, því það var mér óskaplega þungbært,“ segir hún.

„Ég finn þá að ég er að dofna niður í hné og alveg niður í hendur og fingur. Ég byrjaði að gráta af kvölum og hugsaði að þetta væri ekki góðs viti. Ég hélt ég væri að lamast.“

Mun ég lamast?

Sjúkrabílar og lögregla mæta svo á staðinn og Ásta grátbiður sjúkraflutningamenn að gefa sér kvalastillandi lyf.

Ásta lá sárkvalin bæði fyrir og eftir aðgerð. Verst var …
Ásta lá sárkvalin bæði fyrir og eftir aðgerð. Verst var þó biðin og kvalirnar áður en hún komst í aðgerð. Ljósmynd/Aðsend

„Þeir þurftu fyrst að meta aðstæður og klæða mig úr úlpu til að koma upp æðalegg og svo fæ ég morfín. En ég fann engan mun og fékk meira og það sló lítillega á verki, en ég fékk tvöfaldan skammt,“ segir Ásta.

„Þeir leggja dýnu á jörðina, leggja mig á hana og pumpa svo í hana, en hún var alveg glerhörð. Svo var helvíti að keyra eftir þessum holótta vegi. Þetta voru langir tveir kílómetrar. Ég var mest upptekin af því að fá verkjalyf og vöðvaslakandi, því kvalirnar í lærunum voru svo miklar og ég var bara í vítiskvölum,“ segir Ásta og segist hafa fengið fleiri lyf við komuna á spítalann, sem sló aðeins á verkina.

„Ég var enn á þessari glerhörðu dýnu og mátti ekki hreyfa mig. Krampinn í lærunum skánaði en annað ekki. Ég lá þarna ein og starði upp í loftið en var svo send í myndatöku og blóðprufu. Eftir sex eða sjö tíma kemur læknir og segir mér að ég sé með innvortis blæðingar í grindarbotni og sex brotna hryggjarliði, þar af eitt óstabílt brot. Ég átti erfitt með að anda og tala en næ að spyrja hvort ég muni geta gengið aftur. Læknirinn sagðist ekki geta svarað því og sagði bæklunarlækna vera að bera saman bækur sínar og að ég ætti að fara í aðgerð,“ segir Ásta og segist hafa himin höndum tekið yfir fréttunum að komast í aðgerð; þá yrði hún svæfð og myndi ekki finna svona mikið til.

„Ég lá svo ein eftir hugsandi um hvort ég myndi lamast, en satt að segja var það eina sem komst að að lina verkina og komast af þessari dýnu.“

Gólaði eins og grís

Það áttu þó eftir að líða tveir langir sólarhringar þar til Ásta var send í aðgerð.

„Ég hélt ég kæmist strax og hugsaði að ég þyrfti bara að lifa af þar til aðgerðastofan yrði tilbúin,“ segir hún en annað átti eftir að koma á daginn. Ásta var flutt inn á deild og þar loks komst hún af grjóthörðu dýnunni, eftir að hafa legið á henni í sjö tíma.

Hryggurinn á Ástu var spengdur saman með plötum, stálpinnum og …
Hryggurinn á Ástu var spengdur saman með plötum, stálpinnum og skrúfum. Ljósmynd/Aðsend

„Ég óska ekki mínum versta óvini að ganga í gegnum þetta. Ég gólaði eins og grís þegar ég var flutt yfir í rúm. En það gerði lífið skárra, enda viss mýkt í þeirri dýnu,“ segir hún og nefnir að þrátt fyrir að starfsfólkið hafi allt unnið sín störf af alúð fannst henni augljóst að mannekla væri á spítalanum.

„Ég fann svo átakanlega fyrir því að það var lítill tími fyrir mann. En ég var svo þakklát fyrir hvert lítið handtak. Mér var rúllað inn í herbergi með konu sem hraut, sem skipti svo sem engu því ég svaf ekki dúr þar sem ég leið vítiskvalir. Ég spurði aftur og aftur hvenær kæmi að aðgerð. Mér var loks tilkynnt það morguninn eftir að ég þyrfti að bíða fram á miðvikudag, sem var tveimur dögum eftir slys.“

Nóttina fyrir aðgerð fékk Ásta það sem líklega mætti kalla taugaáfall.

„Ég var að fríka út. Það kom til mín heilbrigðisstarfsmaður sem strauk á mér höndina og reyndi að róa mig niður, en hún þurfti að fara fljótlega því það var svo mikið að gera. Ég var þarna alveg ósjálfbjarga.“

Af hverju var ekki hægt að taka þig inn í aðgerð fyrr?

„Ég fékk bara það ískalda svar að læknirinn hefði metið það svo að ég gæti beðið. Það fannst mér ómennskt. Ég bara gat þetta ekki og bað um að ég yrði svæfð fram að aðgerð; ég myndi ekki halda þetta út, hreyfingarlaus í tvo sólarhringa. Ég sagði hjúkrunarfræðingnum að ég myndi hreinlega ekki lifa þetta af og bað um töflu sem myndi ganga frá mér; það væri mannúðlegra,“ segir Ásta og segist finna til með starfsfólki að vinna við þessar aðstæður.
„Rosalega er allt hægt í vöfum ef manneskja jafn slösuð og ég var er látin bíða í tvo sólarhringa. Það er ekki ásættanlegt. Mig langaði frekar að deyja en bíða, það er engin spurning. Þótt ég eigi átján og tvítuga stráka sem ég elska út af lífinu, þá var þetta óyfirstíganlegt. Ef einhver hefði rétt mér pillu til að klára þetta hefði ég tekið hana.“

Átakanlegt að horfa á fólk bíða

Loks komst Ásta í aðgerð og þá fyrst voru klippt utan af henni skítugu fötin.
„Það var allt klippt utan af mér og úr fötunum hrynja steinar og sandur. Þá var ég búin að liggja á því líka,“ segir Ásta og nefnir að hún hafi fundið fyrir miklum létti loks þegar verið var að sprauta í hana efni sem myndi svæfa hana.

„Ég hugsaði: nú er loks búið að frelsa mig úr þessu helvíti. Svo vakna ég niðri á deild og mér leið svo miklu betur; það voru himinn og haf á milli,“ segir Ásta og segir aðgerðina hafa gengið mjög vel. Í hrygginn voru settar skrúfur, stálpinnar og plötur og verður Ásta með stálið í hryggnum það sem eftir er.

„Ég kem aldrei til með að vera með eðlilegan hreyfanleika í bakinu; ég verð alltaf eins og spýtukall. Nú eru liðnir tveir mánuðir frá slysinu og ég næ ekki að sofa því það eru alls konar verkir og ég er aldrei verkjalaus.“

Ásta biðlar til útivistarfólks að taka tillit til hvert annars …
Ásta biðlar til útivistarfólks að taka tillit til hvert annars á stígum og vegum. Ljósmynd/Aðsend

Ásta segist hafa séð hversu mikið álag var á deildinni.

„Þarna lá margt eldra fólk í sömu aðstöðu og ég var; misslasað, að bíða eftir aðgerðum. Það var átakanlegt að horfa upp á þetta. Ég gerði þarna upp hug minn; ef ég lenti aftur í sömu stöðu myndi ég frekar binda enda á líf mitt. Ég fer aldrei aftur í þessar aðstæður.“

Hestar eru flóttadýr

Ásta nefnir að hjólreiðafólk og gangandi vegfarendur verði að sýna aðgát á vegum sem þessum. Einnig hefur borið á því að hjólafólk hjóli á reiðstígum.

„Látum nú eitthvað gott af þessu leiða. Það þarf að fræða fólk. Skógræktarfélagið er búið að setja stíg þvert á æfingasvæðið okkar og það kemur stundum fjöldi manns úr blindbeygju úr skógarjaðrinum. Við erum á flóttadýrum. Þegar hestar meta hættu þá er alveg sama hvað þeir eru vel tamdir; þá eru þetta flóttadýr. Og þá verða þessi hættulegu slys. Það sem ég myndi vilja sjá er að hjólafólk áttaði sig á að við erum ekki með dauðan hlut í höndunum. Þetta eru 450 kílóa skepnur sem maðurinn ræður ekki við ef þær fælast,“ segir Ásta og biðlar til alls útivistarfólks að virða svæði hvert annars og stöðva hjól sín ef það mætir hestafólki.

„Þó að þessi vegur væri fyrir alla hef ég margsinnis mætt hjólafólki á reiðstígum og ég hef nokkrum sinnum fengið puttann frá fullorðnum mönnum sem hægja ekki á sér,“ segir Ásta og segist þakklát samhentu átaki hestamannafélaga sem endaði með sáttmála milli hestafólks og annarra vegfarenda.

„Ég get lofað því að fólk sem veldur því að hestar fælast vill aldrei lenda í því aftur.“

Komin í algjöra sjálfheldu

Ásta er nú komin heim eftir að hafa verið í endurhæfingu á Reykjalundi í um þrjár vikur, en þar segir hún hafa verið yndislegt að vera. Hún er nú heima að jafna sig, enn mikið verkjuð enda talið að það taki tvö ár að ná bata. Ásta segir fleiri áverka vera að koma í ljós, eins og á hálsi, og á hún því mikið verkefni fyrir höndum.

„Svo á ég, sem lendi í slysi og búin að ganga í gegnum allt þetta, að fá 57 þúsund frá Tryggingastofnun. Það er það sem grípur mig af því lífeyririnn minn, sem ég er búin að vinna mér inn, er svo skertur. Ég fæ 167 þúsund frá lífeyrissjóðnum, en ég var ekki í fastri vinnu fyrir slysið því ég var í endurhæfingu út af lungunum og er því búin með sjúkrasjóðinn. Þetta kerfi gengur út á það að fara á milli staða, og við hvert skref skerðast réttindi manns. Þegar ég fór á endurhæfingarlífeyri vissi ég ekki að réttindin mín hjá mínu stéttarfélagi myndu hverfa,“ segir Ásta og segist hreinlega ekki vita hvernig hún eigi að ná endum saman eftir slysið.

„Af hverju er í lagi að láta mig lifa af 224 þúsundum á mánuði? Ég fæ alls staðar tíu ólík svör, hvert sem ég hringi. Mér líður eins og ég sé gjörsamlega réttindalaus aumingi. Ég held að hundar séu hærra skrifaðir en öryrkjar. Þetta er svo mikil niðurlæging. Ég hef alltaf verið með milli- til hátekjur í gegnum lífið og borgað samkvæmt því til samfélagsins. Ég vil gjarnan vinna en get það ekki núna. Ég er komin í algjöra sjálfheldu. Hér er frjálshyggjan bara fyrir útvalda, því ég bý ekki við neitt frelsi. Það er allt skoðað ofan í kjölinn og andað ofan í hálsmálið á mér. Það þarf eitthvað að breytast hér.“

Ásta veit ekki hvort hún fer aftur á hestbak um ævina en hefur farið í hesthús að „knúsa“ hestana, eins og hún orðar það, en hún hefur nú selt hestinn sinn. Hún segist í dag vera bæði hrædd og kvíðin, enda gleymir hún aldrei þessum tveimur sólarhringum á spítalanum.
„Ég vakna með martraðir á nóttunni. Mig dreymir ekki sjálft slysið heldur biðina á sjúkrahúsinu.“

Ítarlegt viðtal við Ástþrúði er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert