Þyngdi refsingu fyrir nauðgun á barni

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag dóm héraðsdóms og Landsréttar yfir tveimur mönnum fyrir nauðgun ásamt því að þyngja refsingu þeirra. Dómur yfir þeim hafði áður verið mildaður í Landsrétti.

Lukasz Soliwoda og Tomasz Walkowski voru sakfelldir í héraði, fyrir að hafa árið 2017 nauðgað 16 ára stúlku, og dæmdir til þess að sæta þriggja ára fangelsi árið 2019. Þá voru þeir dæmdir til að greiða stúlkunni sem þeir brutu á 1.300.000 krónur hvor í miskabætur, auk vaxta. 

Dómurinn yfir þeim var staðfestur í Landsrétti en refsing þeirra milduð svo að þeir voru dæmdir í tveggja ára fangelsi og til þess að greiða brotaþola sínum 1.500.000 í miskabætur, auk vaxta. 

Hæstiréttur staðfesti í dag niðurstöður fyrri dómsstiga auk þess sem refsing Tomazar og Lukaszar var þyngd svo að þeir sæti fangelsi í þjú og hálft ár hvor um sig. 

Þeim er hvorum um sig gert að greiða brotaþola 1.800.000 krónur í miskabætur, auk vaxta frá febrúar 2017 til júní 2019 og dráttarvaxta frá júní 2019 til greiðsludags. Þeim er einnig gert að greiða allan saka- og áfrýjunarkostnað. 

Eiga sér engar málsbætur

Í dóminum kemur fram að mennirnir hafi misnotað sér ástand og aðstæður ungrar stúlku í því skyni að ná fram vilja sínum og engu skeytt um velferð hennar. Ættu þeir sér engar málsbætur. 

Brotin eru talin alvarleg og ófyrirleitin. Brotaþoli þeirra var 16 ára þegar brotin áttu sér stað og máttu þeir gera sér grein fyrir að um barn væri að ræða.

mbl.is