Meirihluti gesta á farsóttarhúsi bólusettur

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins.
Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins. mbl.is/Sigurður Bogi

Gylfi Þór Þorsteinsson, forstöðumaður farsóttarhúsa Rauða krossins, segir starfsemina í farsóttarhúsinu á Rauðarárstíg ganga vel en þar eru nú 44 einstaklingar í einangrun.

Þá segir Gylfi að þröngt sé orðið á einangrunarhæðunum og að hugsanlega þurfi að bæta við einni hæð til viðbótar, þó ætti þetta að sleppa í dag.

Þá munu það vera bæði Íslendingar og ferðamenn sem dvelja nú í farsóttarhúsinu. Ferðamennirnir séu aðallega bólusettir einstaklingar sem hafi svo greinst í skimun áður en þeir fara af landi brott. „Það er allavega meirihluti allra sem eru hjá okkur núna bólusettur,“ segir Gylfi.

Bólusettir finni einnig fyrir einkennum

Að sögn Gylfa bera flestir gestir farsóttarhússins sig vel. Þó séu einhverjir mikið slappir, með mikla hálsbólgu, niðurgang og höfuðverk. Þá séu það einnig bólusettir sem finna fyrir þessum einkennum.

Gylfi segir ómögulegt að segja til um hvort bæta þurfi við einangrunarhæð á morgun. „Við vitum það aftur á móti að það eru margar vélar að fara frá landinu á næstu dögum sem þýðir það að fólk er náttúrlega að fara í sýnatökur út af því og þá megum við alveg eins búast við að það komi einhver fjöldi til okkar,“ segir Gylfi og bætir við:

„Auk þess sem Íslendingar hafa verið að greinast án þess að vera í sóttkví, sem segir okkur það að veiran er þarna að skrattast einhvers staðar.“

Meirihluti fólksins sem dvelur í farsóttarhúsinu er þó að sögn Gylfa ferðamenn á leiðinni aftur úr landi en 12 Íslendingar dvelja í farsóttarhúsinu.

Mjög fáir greinst eftir fimm daga sóttkví

Að sögn Gylfa eru um 130 einstaklingar á sóttkvíarhótelunum og þar dvelur aðallega fólk sem kom óbólusett til landsins og þarf því að sæta fimm daga sóttkví.

„Það hafa mjög fáir sem hafa dvalið á sóttkvíarhótelum greinst jákvæðir í seinni skimun og í raun er það þannig að það hafa mun fleiri sem eru bólusettir greinst jákvæðir en þeir sem voru það ekki en voru í fimm daga sóttkví,“ segir Gylfi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert