Stórir bólusetningardagar fram undan

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta hefur gengið fínt,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, í samtali við mbl.is um stöðuna í bólusetningum. Hún segir að þreyta sé ekki komin í starfsfólk.

„Það hafa allir skilning á stöðunni og eru að reyna að koma þessu í gang aftur.“

Í þessari viku klárast bólusetning kennara og skólastarfsmanna ásamt bólusetningu 400 starfsmanna Landspítala sem fengu Janssen-bóluefnið.

Þá hefur einnig verið opin lína á Suðurlandsbraut þar sem bólusetningarnar fara nú fram þar sem fólk hefur getað pantað bólusetningu í gegnum netspjallið á heilsuveru.

„Með kennurunum þá erum við yfirleitt að bólusetja um þúsund manns á dag,“ segir Ragnheiður.

Annaðhvort Pfizer eða Moderna

Dagana 16. til 19. ágúst færast bólusetningar aftur í Laugardalshöll þar sem allir sem hafa fengið Janssen fá örvunarskammt. Það eru um 32 þúsund manns á þremur dögum.

„Þá verða allir kallaðir út aftur og við verðum með stóra bólusetningardaga. Þeir fá annaðhvort Pfizer eða Moderna. Við tökum það jöfnum höndum eftir því hvenær er næsta fyrning á næsta bóluefni.“

Dagana 23. og 24. ágúst verður börnum á aldrinum 12 til 15 ára á höfuðborgarsvæðinu boðið í bólusetningu með Pfizer-bóluefninu.

„Það eru sirka tíu þúsund börn í þessum fjórum árgöngum og það miðast við afmælisdaginn hvenær fólk á að mæta. Við erum búin að tékka á öllum sveitarfélögunum og skólayfirvöldum varðandi þessar dagsetningar og þau telja að þær henti vel svo við munum keyra á þær,“ segir Ragnheiður og nefnir að allar upplýsingar um tímasetningu og annað sé að finna á vef heilsugæslunnar.

Verða að vera í fylgd með fullorðnum

„Þessir krakkar verða ekki boðaðir heldur verða foreldrar að kíkja á tímasetninguna. Við tökum svo ekki á móti neinum börnum nema í fylgd með fullorðnum eða forráðamanni. Við tökum það sem ígildi samþykkis að foreldrar óski eftir bólusetningu fyrir börnin sín með því að koma með þeim,“ segir Ragnheiður og nefnir að þessir fjórir árgangar fái síðan seinni sprautuna um miðjan september.

Ragnheiður nefnir að lokum að verið sé að undirbúa örvunarskammt til heimilismanna hjúkrunarheimilanna ásamt ónæmisbældum og fleiri hópum sem eru viðkvæmir.

„Þetta er því svona alls konar bland í poka hjá okkur og margt að huga að.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert