Sveik út vörur með kortum móður sinnar og annarra

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Karlmaður var í dag dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjársvik árið 2013, en maðurinn sveik út raftæki, eldsneyti og gjafakort með því að gefa upp kreditkortaupplýsingar móður sinnar og þriggja annarra sem hann hafði ekki heimild fyrir.

Brot mannsins áttu sér stað á um fjögurra mánaða tímabili frá ágúst til nóvember árið 2013. Maðurinn er nú búsettur í Svíþjóð og mætti ekki við þingfestingu málsins. Var málið því dæmt að honum fjarstöddum. Tekið er fram í dóminum að rannsókn málsins hafi dregist án framkominnar ástæðu og að ekki hafi komið annað til álita en að skilorðsbinda refsinguna vegna þess hversu langt er um liðið.

Í fyrstu notaði maðurinn kreditkort móður sinnar til að kaupa farsíma hjá Nova fyrir tæplega 800 þúsund krónur, en síðar fór hann einnig að nota það við eldsneytiskaup. Þá notaði hann kortaupplýsingar móður sinnar og annars aðila, sem hann hafði einnig komist yfir, til að kaupa inneignarkort í Bónus fyrir 370 þúsund krónur. Notaði hann seinna kortið einnig til að kaupa vörur hjá Tölvulistanum fyrir 100 þúsund krónur.

Í nóvember hafði maðurinn svo komist yfir kortaupplýsingar tveggja annarra og nýtti hann kort aðila frá Slóveníu til að kaupa fartölvu fyrir 300 þúsund krónur og svo fjórða aðilans til að kaupa sjónvarp og Playstation-tölvu fyrir samtals 675 þúsund í Elko. Eins og áður var það allt án heimildar korthafa.  

Fyrirtækin þar sem maðurinn hafði keypt vörurnar fóru fram á skaðabætur vegna málsins, en maðurinn var sýknaður af öllum þeim kröfum þar sem kröfurnar voru fyrndar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert