Kjörstjórn bárust ábendingar um Ábyrga framtíð

Ábyrg framtíð teflir fram lista í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi norður og Suður­kjör­dæmi.
Ábyrg framtíð teflir fram lista í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi norður og Suður­kjör­dæmi. mbl.is

Þórir Haraldsson, formaður yfirkjörstjórnar í Suðurkjördæmi, staðfestir í samtali við mbl.is að ábendingar hafi borist varðandi framboðslista Ábyrgrar framtíðar í alþingiskosningunum sem fara fram 25. september.

Sem stendur eru ekki veittar upplýsingar um það hvers eðlis ábendingarnar eru en framboð Ábyrgrar framtíðar í Suðurkjördæmi hefur ekki verið úrskurðað gilt.

„Það hafa komið ákveðnar ábendingar til okkar varðandi þennan framboðslista en það er ekki búið að taka afstöðu til þess,“ segir Þórir.

Jóhannes Loftsson er formaður flokksins sem teflir fram lista í Reykja­vík­ur­kjör­dæmi norður og Suðurkjördæmi. 

Yfirkjörstjórn Suðurkjördæmis er búin að úrskurða tíu gild framboð í dag. „Þetta eina fékk síðan frest. Síðar í dag verður tekin afstaða til þess framboðs.“

Vilja fara allt aðra leið í faraldrinum 

Segja má að helstu stefnumál Ábyrgrar framtíðar tengist kórónuveirufaraldrinum og viðbrögðum stjórnvalda við honum. Flokkurinn vill fara allt aðra leið en stjórnvöld hafa farið hingað til í faraldrinum og vill til að mynda aflétta kröfu um sóttkví útsettra og einangrun smitaðra. Þá vill flokkurinn að notkun bóluefnapassa verði hætt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert