Vilja fleiri ferðir, betra leiðakerfi og lægra verð

Í könnuninni er meðal annars spurt hvað Strætó geti gert …
Í könnuninni er meðal annars spurt hvað Strætó geti gert til þess að einstaklingar séu líklegri til að nýta sér þjónustuna. mbl.is/Árni Sæberg

Könnunarfyrirtækið Zenter vann í marsmánuði neytendakönnun fyrir Strætó en slíkt er alla jafna gert einu sinni til tvisvar á ári.

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, segir mikið gagn að þessum könnunum fyrir Strætó. „Við erum alltaf með ákveðinn grunn í spurningunum svo hægt sé að bera saman milli ára en svo reynum við einnig að fá svör við ákveðnum málum sem eru í deiglunni hverju sinni. Til dæmis höfum við kannað viðhorf til næturaksturs og gæludýra og nú í ár voru það áhrif Covid-19 á starfsemina okkar.“

Í könnuninni er meðal annars spurt hvað Strætó geti gert til þess að einstaklingar séu líklegri til að nýta sér þjónustuna. Þrjú svör standa áberandi upp úr. Flestir sögðu aukna tíðni ferða skipta mestu máli í þessu samhengi. Guðmundur segir aðspurður að aukin tíðni ferða sé að sjálfsögðu hluti af langtímaáætlunum um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu.

Þurfi að bíða þangað til 2025

„Þetta er í rauninni það sem Borgarlínan snýst að mestu leyti um,“ svarar hann og bendir á að stefnan sé að tvær stofnæðar Borgarlínu verði teknar í gagnið árið 2025. En líklegt sé að almenningur þurfi að bíða þangað til, hvað varðar tíðari ferðir. Hann segir einnig að ákvörðun um að fjölga ferðum liggi hjá stjórn Strætó og hún sé því í raun pólitísk. „Stjórn Strætó tekur ákvörðun um tíðni ferða og því þyrfti náttúrlega að fylgja fjármagn.“

Næstflestir svöruðu á þá leið að „betra leiðakerfi“ væri líklegast til að stuðla að aukinni notkun strætó. Guðmundur bendir á að afar snúið sé að „besta“ leiðakerfin en hann segir þó að samhliða nýju greiðslukerfi fái Strætó „mjög verðmæt gögn“.

Hingað til hafi einu gögn Strætó um ferðavenjur fólks verið svokallaðir innstigsmælar. Nýja greiðslukerfið verði til þess að hægt sé að sjá hvaðan fólk er að ferðast og hvar það skiptir um vagna. „Þetta gerir okkur vonandi kleift að besta enn betur leiðakerfið okkar.“

Í þriðja lagi bentu svarendur könnunarinnar á að verð væri of hátt. Guðmundur bendir á að verðið á stöku fargjaldi hafi fylgt verðlagshækkun í landinu frá stofnun Strætó. Nú á þriðjudag breytist verðskrá Strætó og segir Guðmundur: „Þar hækkar verð á suma hópa en lækkar á aðra.“

Borgarlína var áttunda algengasta svarið í þessum hluta könnunarinnar en 1,3% svarenda nefndu hana.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert