Ætla að reyna að vanda rannsóknina

Sigríður Björnsdóttir, sérgreinadýralæknir hrossa hjá Matvælastofnun.
Sigríður Björnsdóttir, sérgreinadýralæknir hrossa hjá Matvælastofnun. Ljósmynd/Aðsend

Rannsókn Matvælastofnunar á myndbandi frá dýraverndarsamtökunum AWF/​TSB (Ani­mal Welfare Foundati­on/​Tierschutzbund Zürich) sem sýn­ir mynd­brot frá blóðtöku úr fylfull­um hryss­um er nú á frumstigi og ætla starfsmenn stofnunarinnar að vanda rannsóknina. Þetta segir Sigríður Björnsdóttir, sérgreinadýralæknir hrossa hjá MAST, í samtali við mbl.is

„Þess ber að geta að blóðtaka úr hryssum er mjög árstíðarbundin starfsemi og það er ekki tekið blóð eftir 5. október ár hvert. Þannig í raun og veru getur þetta ekki gerst aftur fyrr en í júlí hvort sem er þannig við höfum bara tíma til þess að skoða þetta mjög vel,“ segir Sigríður.

MAST hafi ekki hafa borist neinar tilkynningar

Innt eftir því segir hún það hafa verið skýrt hvað felst í eftirliti MAST með þessari starfsemi en nú sé verið að skoða hvort það sé „raunhæfur“ möguleiki að bæta eftirlitið enn frekar og hvernig það verði gert.

„Það verður skoðað frá öllum hliðum.“

Spurð segir hún dýralækna sem framkvæmi blóðtöku úr fylfullum hryssum bera skyldu til þess að tilkynna óviðunandi aðstöðu og vinnubrögð við blóðtökur til Matvælastofnunar. Stofnuninni hafi þó ekki borist neinar tilkynningar í tengslum við blóðtökurnar sem sjást á myndbandinu umrædda.

„Við höfum ekki hlotið neinar tilkynningar um þetta en dýralæknar hafa í gegnum tíðina tilkynnt óásættanlega aðstöðu og veitt okkur dýrmætar upplýsingar sem hafa komið okkur að miklu gagni þegar kemur að því að setja starfseminni reglur. Svo þeir hafa sannarlega gert það en ekki í þessum málum sem þarna eiga í hlut.“

Blóðmerabúskapur er stundaður á 119 mismunandi starfsstöðum á landinu.
Blóðmerabúskapur er stundaður á 119 mismunandi starfsstöðum á landinu. mbl.is/Rax

Blóðmerabúskapur ekki leyfisskyld starfssemi

Blóðmerabúskapur sé ekki leyfisskyld starfsemi en Matvælastofnun hafi heimild til þess að stöðva slíka starfsemi sé talin þörf á því og það hafi hún gert áður á grundvelli laga um dýravelferð, að sögn Sigríðar.

Samkvæmt upplýsingum MAST er blóðmerabúskapur stundaður á 119 mismunandi starfsstöðum á landinu. Í myndbandi svissnesku dýraverndarsamtakanna voru aðeins 38 af þessum 119 stöðum heimsóttir og voru óviðunandi vinnubrögð viðhöfð á sláandi mörgum þeirra. Innt eftir því segist Sigríður ekki geta útilokað að svipuð vinnubrögð séu viðhöfð á öðrum starfsstöðum sem dýraverndarsamtökin heimsóttu ekki.

„Ég get að sjálfsögðu ekki útilokað það en ég get sagt að svona slæmar aðstæður hafa ekki komið fram í eftirliti MAST.“

Blóðtaka úr kindum er einnig stundað hér á landi en …
Blóðtaka úr kindum er einnig stundað hér á landi en þó í mun minna mæli. mbl.is/Eggert

Taka bæði blóð úr kindum og hrossum

Blóðmera­bú­skap geng­ur út á það að að taka blóð úr fylfull­um hryss­um svo hægt sé að vinna úr því frjó­sem­is­lyf. Lyfið er svo einna helst notað til að auka frjó­semi annarra hús­dýra á borð við kýr, kind­ur, geit­ur og svín. Lyfið sé þó ekki notað í þeim tilgangi hér á landi, að sögn Sigríðar.

„Virka efnið er fullunnið á Íslandi og svo er það flutt út.“

Lyfið gangi svo kaupum og sölum á Evrópumarkaði, segir hún innt eftir því.

Er blóðtaka framkvæmd í sama tilgangi á einhverjum öðrum dýrum á Íslandi?

„Það er tekið blóð úr bæði kindum og hrossum til að búa til blóðagar fyrir sjúkrahúsin en það er gert í mjög litlu mæli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert