Lítið skref í rétta átt

Aðgerðarhópurinn Öfgar fyrir utan Laugardalsvöll síðastliðið haust.
Aðgerðarhópurinn Öfgar fyrir utan Laugardalsvöll síðastliðið haust. mbl.is/Kristinn Magnússon

Leyfi eða afsagnir fimm manna, sem sakaðir eru um kynferðisofbeldi gegn ungri konu, eru lítið skref í rétt átt að mati Ólafar Töru Harðardóttur, úr aðgerðahópnum Öfgum. Öllum sigrum þolenda fylgi þó bakslag og segir hún facebook-færslu Loga Bergmanns Eiðssonar, útvarpsmanns á K100, dæmi um bakslag.

Þar lýsti Logi yfir sakleysi sínu en ung kona, Vítal­ía Lazareva, sakaði Loga um að hafa gengið inn á hana og ást­mann henn­ar í miðjum ástaratlot­um á hót­el­her­bergi í golf­ferð sem þau voru sam­an í. Á ást­maður­inn að hafa keypt þögn manns­ins gegn því að veita hon­um kyn­ferðis­leg­an greiða með Vítal­íu, gegn henn­ar vilja.

Vítalía sagði í viðtali við Eddu Falak í hlaðvarpinu Eigin konur frá ofbeldisfullu ástarsambandi við þjóðþekktan giftan mann. Hún nafn­greindi hann ekki í þætt­in­um en maður­inn er sagður vera Arn­ar Grant. 

Þar sagði hún enn fremur frá pottaferð með Arnari og þremur öðrum mönnum í sumarbústaðaferð. Áður en hún vissi af hafi þeir all­ir byrjað að snerta hana og þukla á henni. Hún seg­ir þá hafa farið yfir mörk­in og yfir mörk allra sem voru sam­an í pott­in­um. 

Vitaliya Lazareva var gestur Eddu Falak í hlaðvarpsþættinum, Eigin konur, …
Vitaliya Lazareva var gestur Eddu Falak í hlaðvarpsþættinum, Eigin konur, í vikunni. Ljósmynd/Skjáskot Eigin konur

Logi, Arnar Grant, Ari Edwald og Hreggviður Jónsson hafa allir farið í leyfi frá störfum vegna málsins. Þórður Már Jóhannesson lét af störfum sem stjórnarformaður Festar hf., en Ólöf segir þetta vissulega gott skref.

Leyfi af kapítalískum ástæðum

„Þetta er samt eitt lítið skref. Við vitum síðan ekkert hvað þetta að stíga til hliðar þýðir, en tökum því fagnandi,“ segir Ólöf og bætir við að mennirnir gætu þess vegna snúið til baka til sinna starfa eftir einhvern tíma.

„Þetta er líka rosalega kapítalískt. Eins og segir í yfirlýsingu Hreggviðs að hann stigi til hliðar til að raska ekki mikilvægri starfsemi fyrirtækis,“ segir Ólöf og bætir við að hann ætti auðvitað frekar að stíga til hliðar út af ásökunum Vítalíu.

Ólöf er á báðum áttum þegar hún er spurð hvort henni þyki umræðan í tengslum við þetta ákveðna mál vera til marks um breytingar í þá átt að þolendum sé frekar trúað.

Vill ekki vera of bjartsýn

„Kannski er ákveðinn hópur í samfélaginu að líta inn á við. Almennt tel ég fólk ekki trúa þolendum frekar, eða ég á alla vega eftir að sjá það. Ég vil ekki vera of bjartsýn,“ segir Ólöf og bendir á að málið sé búið að krauma undir niðri í töluverðan tíma:

„Vítalía greinir upprunalega frá öllu á samfélagsmiðlum 29. október. Þá sögðu flestir að þetta væri bull en síðan fer hún í þetta viðtal hjá Eddu,“ segir Ólöf.

Sóley Tómasdóttir, kynja- og fjölbreytileikafræðingur, sagði í Kastljósi í gærkvöldi að öllum sigrum fylgdi bakslag. Ólöf tekur undir það.

„Færsla Loga er dæmi um bakslag. Hann tekur í raun og veru sömu aðferð og er alltaf notuð, sömu ófrumlegheitin og menn sem hafa verið í sömu stöðu og sakar hana óbeint um lygar.“

Ólöf segir að læk frá Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur vís­inda-, iðnaðar og ný­sköp­un­ar­ráðherra sé afhjúpandi.

„Gerendameðvirknin er svo víða. Það er svo auðvelt að segjast standa með þolendum þar til maður þekkir geranda. Mér finnst að fólk í opinberri stöðu, eins og Áslaug Arna, þurfi að passa betur upp á þetta því þetta hefur áhrif,“ segir Ólöf og spyr einnig hvað herferðin „Ég trúi“ sem Áslaug tók þátt í merki þá:

„Þýðir þetta „ég trúi“, en bara ef ég þekki meintan gerandann ekki?“

mbl.is